Tjáir sig ekki um lögregluútkall

Boris Johnson á fundinum í Birmingham í dag.
Boris Johnson á fundinum í Birmingham í dag. AFP

Boris Johnson, sem þykir líklegastur til þess að verða kjörinn næsti leiðtogi Íhaldsflokksins og taka þar með við af Theresu May sem forsætisráðherra, neitaði á framboðsfundi í Birmingham í dag að svara spurningum um meintar heimiliserjur hans og Carrie Symonds á fimmtudagskvöld.

Fram hefur komið í umfjöllunum breskra fjölmiðla í dag að nágrannar vitni um að hafa heyrt læti úr íbúð parsins, kvenmannsöskur og háa skelli, og að Symonds hafi sagt bæði „farðu af mér“ og „farðu úr íbúðinni minni“. Lögregla segist hafa rætt við alla sem voru í íbúðinni og að þar hafi allt verið öruggir og haft það gott.


Málið hefur þó vakið mikla athygli og þótti útvarpsmanninum Iain Dale, sem stýrði framboðsfundinum í Birmingham í dag, að áheyrendur í sal og breska þjóðin ættu skilið að fá að vita hvað hefði gengið á í aðdraganda þess að lögregla var kölluð á staðinn, þar sem Johnson væri að sækjast eftir valdamestu stöðu landsins.

Johnson vék sér þó undan því að svara spurningum Dale um atvikið og hlaut útvarpsmaðurinn bágt fyrir hjá áhorfendum í sal fyrir að þráspyrja stjórnmálamanninn um málið, þegar öllum var orðið ljóst að hann hefði ekki í hyggju að tjá sig um málið. Sumir bauluðu á umræðustjórnandann, en Johnson kom honum til varnar og sagði fólki að hætta að baula.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert