Grafnir lifandi í fastasvefni

Aðstæður á vettvangi eru í meira lagi ömurlegar og von …
Aðstæður á vettvangi eru í meira lagi ömurlegar og von björgunaraðila um að finna einhverja á lífi í rústunum núna þegar að tæpir tveir sólarhringar eru liðnir frá hruni byggingarinnar er að fjara út. AFP

„Ég er svo heppinn að vera á lífi,“ segir Phat Sophal, verkamaður í borginni Sihanoukville í Kambódíu, sem bjargað var úr rústum sjö hæða nýbyggingar sem hrundi til grunna aðfaranótt laugardags.

18 eru látnir, allir úr hópi þeirra sem unnu við að byggja húsið, en um 70 verkamenn höfðust við á neðri hæðum hússins og voru í fastasvefni er byggingin hrundi fyrirvaralaust.

„Það heyrðist hár skellur.. gólfið skalf og skyndilega hrundi byggingin. Ég var fastur undir braki frá mitti,“ segir Sophal í samtali við AFP. Hann segir að frændi sinn og bróðir hafi sofið rétt hjá honum og að allir hafi verið að öskra eftir hjálp eftir að byggingin hrundi. Fljótlega hafi þó hljóðin fjarað út.

„Ég held að þeir hafi ekki lifað af,“ segir Sophal um örlög frænda síns og bróður, en björgunaraðgerðir standa enn yfir í rústunum, þó að vonin um að einhver finnist á lífi sé orðin ansi fjarlæg.

Hermaður á vettvangi, sem vildi ekki láta nafns síns getið, sagði við AFP í gær að björgunaraðilar hefðu í gær heyrt óp manna undan rústum hússins, en að í dag hefði þögnin verið allsráðandi.

„Ef þú ferð upp á rústirnar, finnur þú lyktina af rotnandi líkum,“ sagði hermaðurinn.

Fjórir hafa verið handteknir og yfirheyrðir vegna hruns byggingarinnar, þrír kínverskir eftirlitsmenn með framkvæmdunum og kambódískur landeigandi, en framkvæmdin var í höndum Kínverja, sem hafa fjárfest mikið í strandbænum á undanförnum árum.

Talið er að öryggismálum hafi verið verulega ábótavant og Hun Sen forsætisráðherra Kambódíu hefur sakað verktaka um kæruleysi.

18 hið minnsta hafa fundist látnir í rústunum.
18 hið minnsta hafa fundist látnir í rústunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert