Vaknaði alein í almyrkvaðri flugvél

Tiffani Adams brá heldur betur í brún þegar hún vaknaði …
Tiffani Adams brá heldur betur í brún þegar hún vaknaði í almyrkvaðri flugvél á flugvellinum í Toronto og uppgötvaði að hún væri ein og yfirgefin, í skítakulda, og enn með sætisólina spennta. AFP

Tiffani Adams brá heldur betur í brún þegar hún vaknaði í almyrkvaðri flugvél á flugvellinum í Toronto 9. júní síðastliðinn og uppgötvaði að hún var alein í allri vélinni. Hún var á leiðinni frá Quebec til Toronto með Air Canada og sofnaði í fluginu. Þegar hún vaknaði var hún ein og yfirgefin, í skítakulda, og enn með sætisólina spennta.

Adams segist hafa fengið síendurteknar martraðir frá því að atvikið átti sér stað og sakar hún flugfélagið um að hafa skilið sig eftir í vélinni. Fram kemur í tilkynningu frá Air Canada að verið sé að rannsaka hvernig svona nokkuð geti gerst, það er að einn farþegi sé skilinn eftir við lendingu.

Adams segir þetta hafa verið hræðilega lífsreynslu. Hún hringdi í vinkonu sína til að láta vita af sér sem hún rétt náði áður en síminn hennar varð batteríslaus. Adams gat ekki hlaðið símann þar sem vélin var ekki í gangi. Vinkona hennar hafði samband við flugvöllinn í Toronto. Á meðan Adams beið fór hún fram í flugstjórnarklefann þar sem hún náði að kveikja ljós til að vekja athygli á sér.

Starfsmaður sem var að keyra farangur á vellinum tók eftir Adams og kom henni til aðstoðar. Hann segir hana hafa verið í áfalli þegar hann kom að henni.

Air Canada bauð Adams að fara frá flugvellinum í eðalvagni sem myndi aka henni á hótel en hún afþakkaði. Eina sem hana langaði var að komast heim eins fljótt og auðið var. Forsvarsmenn flugfélagsins hafa ítrekað beðið Adams afsökunar.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert