Fjölmiðlar dæmdir vegna ummæla á Facebook

Hæstiréttur í New South Wales-fylki komst að þeirri niðurstöðu að …
Hæstiréttur í New South Wales-fylki komst að þeirri niðurstöðu að Sydney Morning Herald, The Australian og Sky News, bæru ábyrgð á ummælum sem skrifuð voru á Facebook-síðum miðlanna við fréttir um mál Dylans Voller árin 2016 og 2017. AFP

Þrír ástralskir fjölmiðlar voru í dag dæmdir til að greiða bætur vegna ummæla sem lesendur miðlanna skrifuðu á Facebook-síður fjölmiðlanna. Þetta er í fyrsta sinn sem fjölmiðlar í Ástralíu eru dæmdir í máli sem þessu.

Hæstiréttur í New South Wales-fylki komst að þeirri niðurstöðu að Sydney Morning Herald, The Australian og Sky News, bæru ábyrgð á ummælum sem skrifuð voru á Facebook-síðum miðlanna við fréttir um mál Dylans Voller árin 2016 og 2017.

Mál Voller var afar umfangsmikið á sínum tíma en greint var frá því að hann hafi sætti ofbeldi af hálfu starfsmanna unglingafangelsa þar sem hann dvaldi af og  til árum saman. Í ummælum við fréttir tengdar málinu var Voller sakaður um margvíslega glæpi, meðal annars nauðgun og að blinda liðsforingja í hjálpræðishernum á öðru auga.

Voller fór í mál við fjölmiðlana og segja lögmenn hans að ummælin væru ærumeiðandi og á ábyrgð fjölmiðlanna. Lögmenn miðlanna þriggja sögðu að ekki væri hægt að ætlast til þess að miðlarnir læsu yfir og eyddu athugasemdum, sem skipa hundruðum og jafnvel þúsundum á Facebook-síðum miðlanna allan sólarhringinn.

Dómarinn var hins vegar þeirrar skoðunar að miðlarnir hefðu haft færi á að fara yfir ummælin og hefðu getað eytt eða að minnsta kosti falið ærumeiðandi ummæli. Því voru miðlarnir dæmdir til að greiða bætur og lögfræðikostnað Vollers. Í dómnum er hins vegar ekki tekin afstaða til þess hvort ummælin séu ærumeiðandi eða ekki.

Niðurstaðan vekur óneitanlega upp spurningar um hvort meiðyrðalöggjöf í Ástralíu sé orðin enn strangari en áður og styrkt stöðu stefnenda enn frekar, að því er fram kemur í frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert