Kýpurmorðinginn fékk sjö lífstíðardóma

Nicos Metaxas, grísk-kýpverskur hermaður á fertugsaldri, hefur fengið sjöfaldan lífstíðardóm …
Nicos Metaxas, grísk-kýpverskur hermaður á fertugsaldri, hefur fengið sjöfaldan lífstíðardóm fyrir ódæðisverk sín. Hann er fyrsti raðmorðinginn í sögu eyríkisins. AFP

Sjöfaldur lífstíðardómur var sú refsing sem að kýpverskum dómstóli þótti hæfileg fyrir Nikos Metaxas, 35 ára gamlan hermann, sem játað hefur á sig að hafa orðið fimm erlendum konum og tveimur barna þeirra að bana á um það bil tveggja ára tímabili.

Við dómsuppsögu í höfuðborginni í Nikósíu í morgun sagðist Metaxas, tárvotur um augun, ekki vita hví hann framkvæmdi þessa „hatursfullu glæpi“ og bað fjölskyldur fórnarlambanna afsökunar. Málið hefur vakið mikinn óhug á Kýpur, enda er þetta í fyrsta sinn sem einhver íbúa þar gerist sekur um raðmorð, svo vitað sé.

Raðmorðinginn sagði að kýpversk samfélag myndi velta vöngum yfir því hvernig stæði á því að hann hefði framið þessa voðalegu glæpi. „Ég hef líka spyrt sjálfan mig að því. Ég hef ekki ekki fundið svarið,“ sagði hann og bætti við að hann væru reiðubúinn að aðstoða yfirvöld við að komast til botns í því.

Lík fórnarlambanna fundust eftir að Metaxas játaði á sig glæpi …
Lík fórnarlambanna fundust eftir að Metaxas játaði á sig glæpi sína og beindi lögreglu á rétta braut. AFP

175 ára dómur

Dómurinn er sá þyngsti sem nokkurn tíma hefur verið kveðinn upp á Kýpur, en lífstíðarfangelsi á Kýpur er 25 ára fangelsisdómur og hlýtur raðmorðinginn því samanlagt 175 ára fangelsisvist fyrir ódæðisverk sín.

Þrír dómarar sögðu að Metaxas hefði „lagt upp vegferð til að drepa varnarlausar konur“ og ekki er búist við því að hann áfrýji dómi þeirra.

Morðin framdi Metaxas frá september 2016 til ágúst í fyrra. Fórnarlömbin voru erlendar konur sem flestar unnu við ræstingar í eyríkinu í Miðjarðarhafi, þrjár frá Filippseyjum, ein frá Nepal og ein frá Rúmeníu. Þá myrti maðurinn einnig tvær dætur fórnarlamba sinna, sex og átta ára að aldri.

Fjölskyldur fórnarlambanna og fleiri hafa sakað lögregluyfirvöld um bresti og stofnanabundinn rasisma í málinu, þar sem hvarf erlendu verkakvennanna hafi ekki verið rannsakað til hlítar.

Æðsti yfirmaður lögreglu var rekinn vegna vinnubragðanna og dómsmálaráðherrann hefur sömuleiðis sagt af sér.

Forseti Kýpur, Nicos Anastasiades hefur gagnrýnt störf lögreglu og sagt að betri frumrannsóknir á hvarfi kvennanna hefði getað bjargað mannslífum, en ekkert kom í ljós um hvarf kvennanna fyrr en að túristi fann lík í stöðuvatni fyrir tilviljun, í apríl síðastliðnum.

mbl.is