Ekki gert án samvinnu

AFP

Boris Johnson, sem allt bendir til þess að verði næsti forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretar geti ekki yfirgefið Evrópusambandið án þess að það sé gert í samvinnu við ESB til að koma í veg fyrir alvarleg áföll í kjölfar Brexit. Þetta kom fram í viðtali við Johnson á BBC í gærkvöldi.

Johnson hefur ítrekað haldið því fram að Bretar ættu að yfirgefa ESB á settum degi, 31. október, hvort sem það er án samnings eður ei. En til þess að koma í veg fyrir rask á landamærum og í viðskiptalífinu verði að vera samstarf þar um, segir hann nú.

Mikilvægt sé að samvinna og samstarf ríki milli Breta og ESB þegar að brotthvarfinu kemur. Án Brexit-samnings milli Breta og ESB er mikið í húfi fyrir viðskiptalífið vegna stöðu breskra fyrirtækja innan ESB.

Fréttir bárust af háværu rifrildi Johnson og sambýliskonu hans í síðustu viku sem endaði með því að lögreglan kom á heimilið og ræddi við þau eftir að nágranni hringdi í neyðarlínuna. Johnson sagði í viðtalinu við BBC í gærkvöldi að hann hafi haft þá reglu í mörg ár að ræða ekki málefni fjölskyldunnar opinberlega. Slíkt væri einfaldlega ekki réttlátt í þeirra garð, að draga þau inn í slíka umræðu. Í gær voru birtar myndir af honum ásamt sambýliskonu, Carrie Symonds, þar sem þau eru skælbrosandi og haldast í hendur uppi í sveit en myndirnar voru teknar á sunnudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert