Gátu ekki sofið fyrir hungri

AFP

Hundruð flóttabarna er haldið vikum saman án þess að þau hafi aðgang að sápu, hreinum fötum eða viðunandi fæði. Þetta staðfesta bandarísk yfirvöld við New York Times.

Talið er að ástandið sé komið að þolmörkum hvað varðar aðstæður í landamærabúðum sem eru yfirfullar.

Hópur lögfræðinga fékk aðgang að landamærastöðinni í bænum  Clint, í Texas nýverið. Þar sáu þeir börn niður í átta ára annast yngri börn, jafnvel nokkurra mánaða gömul börn sem voru ekki sinni með bleyjur. Börnin greindu lögfræðingunum frá því að þau gætu ekki sofið á nóttunni vegna hungurs.

Þrátt fyrir að ekki séu svo margir í landamærastöðinni, að minnsta kosti miðað við þann fjölda sem fer um ríkismörkin á hverjum mánuði eru lýsingar lögfræðinganna afar sláandi, segir í frétt New York Times. Hingað til hefur þessum upplýsingum verið haldið frá bandarískum almenningi. 

AFP

Hún hverfur ekki úr huga lögmannsins W. Warren Binfor minningin um börnin í Clint eftir að hún heimsótti búðirnar nýverið. Mynd af 15 ára gamalli móður með lítið barn atað í hor. Alveg saman hvað hún reyndi að þvo föt barnsins í vaskinum - þau urðu ekki hrein. Enda enga sápu að fá til þess að þrífa fatnað eða börnin. Skipti engu að barnið væri veikt. Hún reyndi að finna mat fyrir barnið en ekkert slíkt var í boði. Eina sem þau fengu að borða var haframjöl að morgni, bollasúpa í hádeginu og frosið burrito í kvöldmat. „Hvern einasta dag,“ segir Binford í samtali við Washington Post. Fullt vöruhús af skítugum börnum sem höfðu ekki þvegið sér dögum saman. Mörg með lýs og inflúensu. Börn sinntu börunum.

Yfirvöld í ríkinu segja að fjöldi flóttafólks sé slíkur að þau ráði ekki lengur við ástandið. Talskona heilbrigðiseftirlits og mannúðarmála tengdu flóttafólki,  Department of Health and Human Services’s Office of Refugee Resettlement, Evelyn Stauffer, segir í samtali við NYT að ógn blasi við landamæri Bandaríkjanna í suðri. Skrifstofan annast vistun barna eftir að þau eru flutt frá tímabundnum búsetuúrræðum á landamærunum. 

AFP

Hún segir að skrifstofan hafi ásamt varnar-, dóms- og innanríkisráðuneytinu óskað eftir 4,5 milljarða Bandaríkjadala fjárveitingu til þess að geta annast um sífellt stækkandi hóp barna sem er í skýlunum. „Við getum ekki lýst því hversu brýn þörfin er,“ segir hún. 

Lögfræðingarnir heimsóttu Clint 17. júní og var það að fengnum úrskurði dómara eftir langt og strangt ferli í réttarkerfinu. Þegar þeir komu og sáu við hvaða aðstæður börnin bjuggu tóku þeir þegar til við að berjast fyrir bættum hag barnanna. 

Að sögn Stauffer voru 249 börn flutt inn í búsetuúrræði á vegum flóttamannahjálparinnar og einhver þeirra voru send í tjaldbúðir í El Paso.

Meðal þess sem börnin skortir eru bleyjur, hrein föt og tannburstar. Boðað hefur verið til mótmæla í Clint í kvöld en svo virðist sem fólk ætli að koma þangað víða að, samkvæmt frétt NYT. 

Hrein föt er munaður sem börnunum í Clint býðst ekki.
Hrein föt er munaður sem börnunum í Clint býðst ekki. AFP

Smábörnin sem eru í Clint-búðunum hafa annað hvort verið aðskilin frá foreldum sínum eða eru börn unglingsstúlkna sem einnig er haldið á sama stað. Einhver barnanna hafa verið þarna í einn mánuð.

Lögmennirnir ræddu bæði við blaðamenn Associated Press og New York Times og segja að börnin hafi ekki aðgang að klósettum, sápum, tannburstum og tannkremi. Mörg þeirra voru enn í sömu skítugu fötunum og þau höfðu verið í þegar þau komu til landsins nokkrum vikum fyrr. Ekki er ætlunin að þau dvelji jafn lengi og raun ber vitni í Clint en vegna þess að öll skýli eru full þá hafi ekki verið hægt að senda þau annað. 

Frétt KVIA

Frétt CBS

Frétt Washington Post

Börn sem eru í búðunum hafa mörg hver verið aðskilin …
Börn sem eru í búðunum hafa mörg hver verið aðskilin frá foreldrum og öðrum fullorðnum ættingjum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert