Komst á þing en gat ekki borgað námslán

Alexandria Ocasio-Cortez, þingmaður demókrata í New York-ríki, er meðflutningsmaður Bernie …
Alexandria Ocasio-Cortez, þingmaður demókrata í New York-ríki, er meðflutningsmaður Bernie Sanders í frumvarpi hans um niðurgreiðslu ríkissjóðs á námslánum. AFP

„Fyrir ári síðan vann ég sem þjónn á veitingastað og þá reyndist mér bókstaflega auðveldara að verða yngsta kona í sögu Bandaríkjanna til þess að vera kosin á þing en að greiða niður skuldirnar af námslánunum mínum,“ sagði Alexandra Ocasio-Cortez, þingmaður demókrata og einmitt yngsta kona í sögu Bandaríkjanna til að vera kosin á þing, í ávarpi sem hún flutti á mánudag.

Þetta sagði Ocasio-Cortez á fundi við þinghúsið í Washington, þar sem Bernie Sanders kynnti áform sín um að ríkissjóður myndi niðurgreiða námslán Bandaríkjamanna. Hún er meðflutningsmaður frumvarps Sanders og var viðstödd fundinn, ásamt þingkonunum Ilhan Omar og Pramila Jayapal. 

„Þessi saga mín ætti að segja allt sem segja þarf um bandarískt hagkerfi og lífsskilyrðin fyrir fólk á vinnumarkaði,“ sagði Ocasio-Cortez. Hún kveðst hafa þurft að gera hið ómögulega til þess að loksins komast í stöðu til þess að niðurgreiða námslánin sín, krafa, sem hún telur ekki að eigi að hvíla á fólki sem vill aðgang að háskólamenntun.

Í Bandaríkjunum hefur verið til umræðu inni á þingi róttækt frumvarp Bernie Sanders, sem sækist eftir tilnefningu til að verða forsetaframbjóðandi demókrata í forsetakosningunum 2020, lagði fram. Í tillögum hans fólust aðgerðir sem lutu að því að afskrifa öll námslán í Bandaríkjunum og lyfta þannig byrðunum af 45 milljónum Bandaríkjamanna.

mbl.is