Sanders vill afskrifa öll námslán

Bernie Sanders kynnti 2.200 milljarða dala menntaáætlun sína í gær. …
Bernie Sanders kynnti 2.200 milljarða dala menntaáætlun sína í gær. Hana skal fjármagna með skatti á verðbréfakaupendur. AFP

Bernie Sanders hefur kynnt áætlun sína um að afskrifa öll námslán í Bandaríkjunum. Áætlunin myndi lyfta byrðum af 45 milljónum Bandaríkjamanna, en heildarupphæð námslána í Bandaríkjunum nemur um 1.600 milljörðum dala. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að skólagjöld í opinberum háskólum og iðnskólum skuli aflögð, og að þak verði sett á námslánavexti.

„Við munum gera réttinn til fulls náms að mannréttindum,“ segir þingmaðurinn, sem sækist eftir útnefningu sem forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins til forsetakosninga, sem fram fara á næsta ári.

Tuttugu sækjast nú eftir útnefningunni og mælist Sanders annar á eftir Joe Biden, fyrrverandi varaforseta. Sanders leggur frumvarpið fram ásamt Pramila Jayapal og Ilhan Omar, þingkonum Demókrata.

Wall Street borgi brúsann

Ráðgert er að átakið kosti 2.200 milljarða bandaríkjadala yfir tíu ára tímabil, en það á að fjármagna með sérstökum „Wall Street spákaupmennsku-skatti“ upp á 0,5% á hlutabréfakaup og 0,1% á skuldabréfakaup.

„Bandaríska þjóðin borgaði brúsann fyrir Wall Street. Nú er kominn tími til að Wall Street komi millistéttinni í þessu landi til hjálpar,“ sagði Sanders er hann kynnti frumvarpið í Washington í gær.

Frumvarpið þykir mun róttækara en frumvarp sem Elizabteh Warren, annar frambjóðandi Demókrata, hefur lagt fram. Samkvæmt hennar tillögu myndu einstaklingar með heimilistekjur undir 100.000 dölum á ári (um 1 milljón króna á mánuði) fá 50.000 dali (6 milljónir kr.) afskrifaða af námslánum sínum, auk þess sem fólk með tekjur allt upp að 2,5 milljónum króna á mánuði fengi eitthvað, en minna, í sinn hlut.

mbl.is