11 ára fangelsi fyrir morðið á Sunnivu

Sunniva Ødegård var þrettán ára þegar hún var myrt með …
Sunniva Ødegård var þrettán ára þegar hún var myrt með hrotta­leg­um hætti í smá­bæn­um Var­haug í Roga­land á vest­ur­strönd Nor­egs aðfaranótt 30. júlí í fyrra.

18 ára karlmaður var í dag dæmdur í ellefu ára fangelsi  fyrir að verða hinni 13 ára gömlu Sunnivu Ødegård að bana með hrotta­leg­um hætti í smá­bæn­um Var­haug í Roga­land á vest­ur­strönd Nor­egs aðfaranótt 30. júlí í fyrra.

Lík Sunnivu fannst skammt frá heim­ili henn­ar aðfaranótt 30. júlí og setti lög­regl­an sam­stund­is í gang um­fangs­mikla rann­sókn og leit. Hún hafði verið beitt harka­legu of­beldi á tveim­ur stöðum. Ann­ars veg­ar við steintröpp­ur skammt frá staðnum þar sem hún fannst og svo á öðrum stað sem ekki hef­ur verið greint frá, en líkið hafði verið fært frá dán­arstað. Drengurinn, þá sautján ára, gaf sig fram sem vitni skömmu eft­ir lík­fund­inn, en játaði 9. ág­úst að hafa myrt stúlk­una.

Í frétt VG segir að dómurinn þyki óvenjulegur þar sem maðurinn var 17 ára þegar morðið var framið og að hingað til hafi það ekki tíðkast í Noregi að dæma einstakling undir lögaldri til afplánunar varðveisludóms (n. forvaring), líkt og ákæruvaldið fór fram á. Varðveisludómur er sama réttar­úr­ræði og beitt var gegn And­ers Brei­vik og fel­ur í sér að fram­lengja megi refsi­vist hins dæmda að lok­inni ákveðinni lág­marks­afplán­un svo lengi sem hætta sé tal­in á end­ur­tek­inni hátt­semi.

Saksóknari fór fram á 12 ára fangelsi þar sem það væri hafið yfir allan vafa að morðið hafi verið framið að yfirlögðu ráði. Í niðurstöðu dómsins segir að morðið hafi verið þaulskipulagt, hrottalegt og gert í afar annarlegum, kynferðislegum tilgangi. 

Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa myrt Sunnivu en taldi sig ekki sakhæfan sökum geðræns ástands. Hann var hins vegar metinn sakhæfur af yfirlækni og geðlæknum. „Mögu­legt verður að telj­ast að [ákærði] hafi verið í neyslu­tengdu geðrofi sem síðar hafi þró­ast út í geðveikis­ástand á borð við geðklofa,“ sagði meðal annars í niðurstöðu dr. And­ers Hartwig yf­ir­lækn­is og geðlækn­anna Tor Ketil Lar­sen og Dan Tung­land sem komu fyr­ir Héraðsdóm Jær­en fyrr í þessum mánuði. 

Ásamt fangelsisvist er maðurinn dæmdur til að greiða foreldrum Sunnivu 500 þúsund norskar krónur í miskabætur, eða sem nemur rúmum sjö milljónum íslenskra króna. 

Í frétt VG kemur fram að ákveðið hafi verið að áfrýja dómnum áður en hann birtist. Búist er við að ákvörðun um áfrýjun verði tekin síðar á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert