5.000 afbrot öfgahægrimanna í Berlín

Þýska lögreglan hefur haft í nógu að snúast vegna hægriöfgamanna …
Þýska lögreglan hefur haft í nógu að snúast vegna hægriöfgamanna í Berlín á árinu. Þeir eru langstærsti hluti þess hóps sem hefur ráðist að gyðingum þar í borg á árinu. AFP

Frá byrjun árs og fram í apríl fengu lögregluyfirvöld í Berlín rúm 5.000 afbrot á sitt borð knúin áfram af pólitískri hægriöfgastefnu. 226 af málunum fólu í sér ofbeldisbrot og minnst 125 særðust á þessu tímabili eftir árasir framdar af nýnasistum eða öðrum öfgahægrimönnum.

Þetta er bráðabirgðatölfræði sem greint var frá í svari ríkisstjórnarinnar við fyrirspurn þingmannsins Petra Pau úr vinstriflokknum Linke. Að því er kemur fram í Der Tagesspiegel mun talan hækka.

Frá janúar fram í mars í Berlín voru skráð 223 afbrot tengd andúð á gyðingum. Átta þeirra voru ofbeldisbrot. Af þessum 223 afbrotum reiknar lögreglan aðeins með því að 3 hafi verið af hendi múslima en 203 frá hægriöfgamönnum hvers konar.

Um 3,6 milljónir manna búa í Berlín.
Um 3,6 milljónir manna búa í Berlín. AFP

Der Tagesspiegel bendir þá á að tölfræði lögreglunnar um glæpi gegn gyðingum sé umdeild, þar sem ýmis samtök gyðinga vilji meina að hlutfalli hægriöfgamanna sé ofgert í þeim útreikningum en of lítið sé gert úr hlut innflytjenda og múslima sem árásarmanna.

Árið 2018 skráði lögregla um gervallt Þýskaland 20.431 hægriöfgaglæpi. 1.156 þeirra voru staðfest ofbeldisbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert