Nakinn í sandölum á vespu í hitabylgju

Ökumaður vespunnar tók golunni líklega fagnandi þegar hann þeystist um …
Ökumaður vespunnar tók golunni líklega fagnandi þegar hann þeystist um nakinn (en með hjálm og í sandölum að sjálfsögðu) á vespunni í Brandenburg. Ljósmynd/Twitter

Lögreglan í Brandenburg í Þýskalandi áminnti mann á vespu sem hafði gripið til þess ráðs í hitabylgjunni sem nú gengur yfir mið- og suðurhluta Evrópu að ferðast um vespunni einungis með hjálm og í sandölum. 

Það er ekki ólöglegt að aka nakinn í Þýskalandi, svo lengi sem engar kvartanir berast lögreglu, og því var ökumaðurinn einungis áminntur. Lögreglan birti hins vegar mynd af manninum á Twitter og sagðist vera orðlaus og bað netverja um tillögu að myndatexta. 

Nekt hefur orðið að talsverðu umtalsefni í kjölfar hitabylgjunnar og voru nokkrar konur við Isar-ána í Munchen afar óánægðar þegar öryggisverðir báðu þær vinsamlegast um að fara aftur í bikiní-toppana þegar þær voru að sóla sig. Fleiri sólbaðsgestir voru óánægðir með afskipti öryggisvarðanna og fóru úr sundfötunum, konunum til stuðnings. 

Umræða um nekt hefur teygt sig inn í borgarmálin í Munchen. „Fyrir mitt leyti er það óskiljanlegt að menn megi vera naktir í sólbaði en ekki konur,“ sagði Dominik Krause, borgarfulltrúi Græningja, á borgarráðsfundi í vikunni. 

CSU, samstarfsflokkur Angelu Merkel kanslara, tók annan pól í hæðina og lagði fram tillögu á fundinum þar sem mælst er til þess að þeir sem leggi stund á sólböð eða sundiðkun klæðist „sundfötum sem hylji kynfæri“ nema á sérstaklega tilgreindum nektarstöðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert