Lést eftir hákarlaárás í sumarfríi

Konan var í fríi í Nassau á Bahamaeyjum.
Konan var í fríi í Nassau á Bahamaeyjum. Ljósmynd/Wikipedia.org

Bandarísk kona lést eftir að hákarlar réðust á hana úti fyrir ströndum Bahama-eyja á miðvikudag. Konan hafði verið í yfirborðsköfun (e. snorkeling) með fjölskyldu sinni þegar hún varð hákörlunum að bráð. 

Jordan Lindsey, 21 árs, var frá Torrance í Kaliforníu-ríki og varð fyrir hákarlaárásinni upp úr klukkan 14:00 að staðartíma samkvæmt lögregluyfirvöldum á Bahama-eyjum. 

Eftir því sem fram kemur á CNN réðust þrír hákarlar á Lindey og bitu á henni hendur, fætur og rasskinnar. Þá var hægri handleggur hennar bitinn af í heild sinni. 

Fjölskylda Lindsey sá hákarlana nálgast hana og reyndi að vara hana við, en hún heyrði ekki til þeirra fyrr en það var orðið of seint. 

Lindsey var komið upp úr vatninu og á sjúkrahús þar sem hún var úrskurðuð látin. Verður líkami Lindey krufinn á Bahama-eyjum í rannsóknartilgangi og síðan fluttur til Kaliforníu.

Var Lindsey eina fórnalambið í árásinni og vinna lögregluyfirvöld að rannsókn málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert