Krúnurökun „refsing“ fyrir mótþróa

Mæðgurnar voru krúnurakaðar gegn vilja sínum.
Mæðgurnar voru krúnurakaðar gegn vilja sínum. Ljósmynd/BBC (ANI)

Tveir menn hafa verið handteknir í Bíhar-fylki á Indlandi eftir að hópur manna rakaði höfuð tveggja kvenna í „refsingarskyni“ fyrir að hafa sýnt mótþróa við nauðgun. 

Í hópi mannanna var meðal annars embættismaður, en hópurinn sat fyrir móður og dóttur á heimili þeirra með það að markmiði að nauðga þeim samkvæmt BBC. 

Þegar konurnar streittust á móti réðust mennirnir á þær, rökuðu hárið af þeim og gengu með þær í gegnum þorpið þar sem þær bjuggu. 

Auk þeirra tveggja sem hafa verið handteknir er fimm annarra leitað í tengslum við málið. 

„Við vorum barðar illa með prikum. Ég hef áverka um allan líkamann og dóttir mín líka,“ sagði móðirin. Þá sögðu mæðgurnar einnig að höfuð þeirra hafi verið rökuð fyrir framan allt þorpið. 

Í frétt BBC segir að tilraun til nauðgunar sé kynferðisglæpur og að líkamsárásin, krúnurökunin og gangan með konurnar í gegnum þorpið sýni hvað vald karla yfir konum sé djúpstætt í indversku samfélagi. Þá valdi það miklum áhyggjum að hópinn hafi leitt embættismaður, kjörinn fulltrúi sem á að gæta velferðar samfélagsins. Ósvífni glæpsins varpi ljósi á það að sumstaðar á Indlandi óttast fólk ekki lögin. 

Árásin á mæðgurnar er ekki sú fyrsta í Bíhar-fylki á undanförnum mánuðum. 

Í apríl varð unglingsstúlka fyrir sýruárás eftir að hafa streist gegn hópnauðgun. Þá eru aðeins nokkrir mánuðir síðan ráðist var á konu í Bíhar, hún afklædd og þvinguð til að ganga nakin í gegnum þorp sitt. 

Reiði almennings gagnvart kynferðisofbeldi á Indlandi jókst til muna árið 2012 eftir að nema var nauðgað og hún myrt í strætisvagni í Delí. 

Kynbundið ofbeldi var áberandi í indverskum stjórnmálum á síðasta ári, eftir röð árása á ungar stúlkur, allar á barnsaldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert