Óttaðist að fólk fyrirfæri sér

Rackete var handtekin um leið og hún gekk frá borði.
Rackete var handtekin um leið og hún gekk frá borði. AFP

Carola Rackete, skip­stjóri björg­un­ar­skips­ins Sea Watch 3 sem var hand­tek­in um leið og hún sigldi með flótta­fólk til hafn­ar á eyj­unni Lam­pedusa í fyrradag, segist hafa farið gegn fyrirmælum lögreglu af ótta við að flóttafólkið um borð fyrirfæri sér. 

Sea Watch 3 hafði verið meinað að sigla til hafnar af ít­ölsk­um yf­ir­völd­um og hafði verið pattstaða í tvær vik­ur milli skips­ins og lög­regl­unn­ar skammt frá eyj­unni Lam­pedusa í Miðjarðar­hafi.

Rackete bað áhöfnina um borð í skipi lögreglu afsökunar og neitaði ásökunum innanríkisráðherrans Matteo Salvini um að hún hafi reynt að sökkva báti lögreglunnar. 

Rackete segir ákvörðun sína um að koma að landi á Ítalíu ekki vera „ofbeldisverk“ og að markmið hennar hafi einfaldlega verið að koma „þreyttu og örvæntingarfullu“ fólki á þurrt land. 

Salvini sagði Rackete vera bæði „sjóræningja“ og „útlaga“. Hún er nú í stofufangelsi á meðan hún bíður þess að vera leidd fyrir dómara. Verði hún sakfelld fyrir dómstólum gæti hún átt yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi. 

Um borði í skipi Rackete voru 53 flóttamenn sem bjargað var við strendur Líbíu fyrr í mánuðinum. 

Samkvæmt BBC sagði Rackete í viðtali sem birtist í ítölsku dagblaði í dag að hún hafi aldrei ætlað að stofna neinum í hættu og hafi sýnt dómgreindarbrest þegar hún reiknaði fjarlægð lögreglubátsins sem hún sigldi á. 

Var að framfylgja skyldu sinni 

Hún sagðist hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu vegna þess að sumir um borð hefðu þá þegar byrjað að stunda sjálfsskaða og hún óttaðist sjálfsvíg á meðal flóttafólksins ef það kæmist ekki á land. 

„Dögum saman hafði áhöfnin skipst á vöktum, líka á nóttunni, af ótta við að einhver myndi kasta sér fyrir borð. Fyrir þau sem ekki kunna að synda þýðir það sjálfsmorð,“ sagði Rackete í viðtalinu. 

Talsmaður Sea-Watch, Haidi Sadik, sagði við BBC að flóttafólkið fengi nú viðeigandi umönnun í Lampedusa. Hún fullyrðir að Rackete hafi fylgt bæði sjórétti og alþjóðlegum mannréttindalögum. 

„Þegar þú bjargar fólki á hafi úti verður þú að koma því í næstu öruggu höfn,“ sagði Sadik. 

Þá sagði hún ákvörðunina um að koma að landi á Ítalíu ekki hafa verið pólitískt uppátæki heldur hafi hún verið að framfylgja skyldu sinni til að bjarga fólki.

Flóttamennirnir frá nú umönnun.
Flóttamennirnir frá nú umönnun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert