„Sandra“ fékk 16 ár

Ein mörg þúsund mynda sem lögregla nýtti sér við rannsókn …
Ein mörg þúsund mynda sem lögregla nýtti sér við rannsókn málsins. Hún sýnir „Söndru“, 27 ára gamlan karlkyns fyrrverandi knattspyrnudómara sem á föstudag hlaut 16 ára fangelsi fyrir að brjóta kynferðislega gegn 270 drengjum á aldrinum níu til 21 árs. Ljósmynd/Úr einkasafni

Tæplega þrítugur fyrrverandi knattspyrnudómari í Raumaríki í Noregi, skammt frá Ósló, hlaut á föstudaginn þyngsta dóm sem nokkru sinni hefur fallið í kynferðisbrotamáli í Noregi, 16 ára fangelsi, en honum var gefið að sök að hafa brotið gegn 270 drengjum kynferðislega og voru ákæruatriðin alls 473.

Auk fangelsisdómsins hefur „Söndru“, eins og knattspyrnudómarinn kallaði sig á lendum lýðnetsins, verið gert að greiða fórnarlömbum sínum 18,5 milljónir norskra króna, jafnvirði 271 milljónar íslenskra króna, í miskabætur fyrir framferði sitt.

Aðferðafræði „Söndru“ fólst í því að ginna unga pilta til að senda knattspyrnudómaranum nektarmyndir af sér gegn loforðum um sambærilegar myndir af sér, kynlíf, samband og fleira. Þegar myndirnar höfðu skilað sér kom annað hljóð í strokkinn og „Sandra“ krafðist fleiri mynda gegn hótunum um að birta opinberlega þær sem þegar voru sendar.

Fóru yfir 22.000 myndskeið

Fórnarlömb „Söndru“ voru á aldrinum níu til 21 árs þegar brotin áttu sér stað. Var knattspyrnudómarinn upphaflega handtekinn árið 2016 en fljótlega sleppt og hélt þá áfram að brjóta af sér, meðal annars hitti hann fyrrverandi aðstoðarmann sinn gegnum blekkingar og hafði svo kynmök við hann er á hólminn var komið. Aðstoðarmaðurinn var eitt af tíu fórnarlömbum sem dæmdi hitti og misnotaði líkamlega.

Lögreglan fór yfir alls 22.000 myndskeið í umfangsmikilli rannsókn sinni sem gekk undir nafninu „Operasjon Sandra“ og teygði sig yfir nokkurra ára tímabil. Var þar leitt í ljós að fórnarlömb knattspyrnudómarans komu frá öllum fylkjum Noregs auk 75 í Svíþjóð og 11 í Danmörku. Tala norskir fjölmiðlar um „mesta netbrotamann Noregs“ (n. Norges verste nettovergriper).

Gard Lier, verjandi „Söndru“, segir 16 ára dóminn koma lítið á óvart. Hann muni nú taka sér tveggja vikna umhugsunarfrest með „Söndru“ til að taka ákvörðun um hvort áfrýjað verði, en segist þó ekki reikna með að svo verði.

NRK

Dagbladet

VG

TV2

mbl.is