Timmermans tekur líklega við ESB

Frans Timmermans er oddviti jafnaðarmanna á Evrópuþinginu. Undir hans stjórn …
Frans Timmermans er oddviti jafnaðarmanna á Evrópuþinginu. Undir hans stjórn unnu jafnaðarmenn mikinn kosningasigur í heimalandi hans, Hollandi. Talið er að leiðtogar ESB-ríkja muni útnefna hann forseta næstu framkvæmdastjórnar. AFP

Frans Timmermans, leiðtogi jafnaðarmanna á Evrópuþinginu, verður að öllum líkindum næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þetta herma heimildir fjölmiðla, meðal annars BBC.

Leiðtogaráð Evrópusambandsins fundar nú í Brussel og stefnt er að því að taka ákvörðun um hver hreppir hnossið áður en nýtt Evrópuþing kemur saman til fyrsta fundar 2. júní eftir kosningarnar sem fram fóru í enda maí.

Timmermans var oddviti jafnaðarmanna og þar með frambjóðandi bandalags jafnaðarmanna til forsætis í framkvæmdastjórninni, annars tveggja valdamestu embætta sambandsins ásamt forseta leiðtogaráðsins. Jean-Claude Juncker lætur af embætti forseta 1. nóvember næstkomandi.

Skip­an nýs for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar er í hönd­um leiðtográðs Evr­ópu­sam­bands­ins, sem í sitja ým­ist for­set­ar eða for­sæt­is­ráðherr­ar aðild­ar­ríkja en í Lissa­bon-sátt­mál­a Evrópusambandsins er kveðið á um að leiðtogaráðið skuli hafa niður­stöður Evrópuþing­kosn­ing­anna til hliðsjón­ar við út­nefn­ing­una. Evr­ópuþingið þarf enda að staðfesta út­nefn­ing­una.

Jafnaðarmenn eru eftir kosningarnar, sem fyrr, næststærsta bandalagið á Evrópuþinginu með 154 sæti af 751, 30 færri en bandalag hægriflokka, EPP. Manfred Weber, oddviti EPP og flokksbróðir Angelu Merkel úr Kristilega demókrataflokknum þýska, hefur gert tilkall til embættisins en ljóst þykir að ekki er samstaða í leiðtogaráðinu um útnefningu hans.

Evrópuþingkosningarnar voru haldnar í lok maí og jókst kjörsókn til …
Evrópuþingkosningarnar voru haldnar í lok maí og jókst kjörsókn til muna frá kosningunum 2014. Flokkar sem tilheyra bandalag hægrimanna, EPP, hlutu flest atkvæði, en jafnaðarmenn næstflest. AFP

 

Meðal baráttumála Timmermans er að koma á lágmarkslaunum innan sambandsins með það fyrir augum að minnka launamun milli aðildarríkja. Ríkjum yrði þó sem fyrr heimilt að setja sín eigin lágmarkslaun, en ekki lægri en þó sem sambandið kveður á um. Rétt til fæðingarorlofs mæðra og feðra, veikindarétt og slysabætur þurfi einnig að styrkja í sambandinu með samskonar aðgerðum.

Timmermans vill taka á fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum sem oft nýta sér gloppur í skattkerfum milli ríkja til að koma sér undan því að greiða skatt í sama hlutfalli og minni fyrirtæki. Þetta sé gott dæmi um verkefni sem aðeins megi leysa með fjölþjóðlegri samvinnu, líkt og Evrópusambandinu, sem geti lagt á sína eigin skatta.

Stór hluti útgjalda Evrópusambandsins fer í landbúnaðarstyrki og vill Timmermans, og jafnaðarmenn, beita þeim styrkjum til að hvetja bændur til umhverfisvænni framleiðslu, sjálfbærrar nýtingar lands og aðgerða gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Jafnaðarmenn styðja þá stefnu sem flest Evrópusambandsríkin hafa sameinast um, að ESB verði kolefnishlutlaust árið 2050, en ekki hefur náðst samkomulag um það vegna andstöðu nokkurra Austur-Evrópuríkja, svo sem Póllands.

Angela Merkel mætir til fundar í morgun.
Angela Merkel mætir til fundar í morgun. AFP

 

„Bandalag frjálslyndra“ sameinast gegn Weber

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, eru meðal þeirra sem hafa hafnað Weber og hafa tvímenningarnir átt í viðræðum við ýmsa starfsbræður sína, einkum António Costa, forsætisráðherra Portúgal, um myndun svonefnd „frjálslynds bandalags“ með það fyrir augum að sameinast um annan frambjóðanda.

Costa og Sanchez eru báðir jafnaðarmenn, en flokkur Macron forseta tilheyrir bandalagi frjálslyndra, Renew Europe (áður ALDE) á Evrópuþinginu. Liðsmenn jafnaðarmanna, græningja og frjálslyndra hafa margir haft á orði í aðraganda kosninganna að mikilvægt sé að hóparnir myndi bandalag á Evrópuþinginu til að binda enda á valdatíð EPP, sem ráðið hefur lögum og lofum í Evrópusambandinu undanfarin ár.

Pedro Sanchez, Emmanuel Macron og Antonio Costa funduðu um stólaleikinn, …
Pedro Sanchez, Emmanuel Macron og Antonio Costa funduðu um stólaleikinn, fyrir leiðtogafund ESB í síðustu viku. AFP

 

Jean-Claude Juncker, núverandi forseti framkvæmdastjórnarinnar, Donald Tusk, hinn pólski forseti leiðtogaráðsins, og Antonio Tajani, forseti Evrópuþingsins, eru til að mynda allir meðlimir í EPP.

Því má segja að útnefning Timmermans sé í góðu samræmi við niðurstöður kosninganna og yfirlýsingar um fyrirhugað bandalag jafnaðarmanna, græningja og frjálslyndra.

Oddvitafyrirkomulagið heldur velli, í bili

Macron hefur raunar verið gagnrýninn á hið svokallaða oddvitafyrirkomulag (þ. spirtzenkandidat) sem tekið var í noktun fyrir síðustu Evrópuþingkosningar og miðar að því að leiðtogaráðið skipi forseta framkvæmdastjórnar í samræmi við útkomu þingkosninganna. Hefur hann ekki talið sig eða aðra leiðtoga bundna af því. Leiðtogaráðið geti skipað hvern sem er í embættið.

Þannig töldu margir að Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðræðunum um útgöngu Breta úr sambandinu, væri líklegur kandídat í embættið þrátt fyrir að hann hefði ekki boðið fram til Evrópuþingsins. Barnier, sem er Frakki, tilheyrir EPP, bandalagi hægriflokka, líkt og Angela Merkel Þýskalandskanslari. Hefðu þessir tveir valdamestu leiðtogar Evrópusambandsríkja, Macron og Merkel, því mögulega getað sameinast um Barnier.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert