Skipstjórinn leiddur fyrir dómara

Rackete var fylgt af lögreglu til réttarins.
Rackete var fylgt af lögreglu til réttarins. AFP

Carola Rackete, þýskur skip­stjóri björg­un­ar­skips­ins Sea Watch 3 sem var hand­tek­in um leið og hún sigldi með flótta­fólk til hafn­ar á eyj­unni Lam­pedusa í fyrra­dag, var í dag leidd fyrir ítalskan dómstól. Greindi hún frá máli sínu í yfirheyrslu fyrir dómara. Mál hennar hefur valdið nokkurri spennu á milli yfirvalda í Róm og Berlín. 

Sea Watch 3 hafði verið meinað að sigla til hafn­ar af ít­ölsk­um yf­ir­völd­um og hafði verið pattstaða í tvær vik­ur milli skips­ins og lög­regl­unn­ar skammt frá eyj­unni Lam­pedusa í Miðjarðar­hafi. Skip hennar sigldi á bát lögreglu, en Rackete segir að um mistök hafi verið að ræða og að hún hafi aldrei viljað stofna neinum í hættu. 

Um borði í skipi Rackete voru 53 flótta­menn sem bjargað var við strend­ur Líb­íu fyrr í mánuðinum. Ítölsk yfirvöld leyfðu 13 manns að koma á þurrt land sökum heilsufarsástæðna en hinir 40 voru áfram um borð í skipinu. 

Rackete, 31 árs, var fylgt af lögreglu til réttarins í dag í borginni Agrigento á Sikiley. Er hún sökuð um að hafa stofnað öryggi lögreglubátsins og áhafnar hans í hættu. Á hún yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsisdóm verði hún sakfelld, en samkvæmt AFP leiða líkur að því að hún verði látin laus úr haldi á meðan beðið er eftir réttarhöldum. 

Utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas, sagðist gera ráð fyrir því að Rackete yrði sleppt úr haldi í kjölfar yfirheyrslunnar. 

Sagði Maas að manneskja sem bjargi lífum gæti ekki verið glæpamaður. 

Þá hafa yfirvöld í Frakklandi einnig gagnrýnt handtöku Rackete og sakað ítölsk yfirvöld um að skapa ringulreið. 

Tveimur fjáröflunum hefur verið komið af stað til að greiða niður lögfræðikostnað Rackete og hafa nú þegar safnast tæplega 1,2 milljónir evra, eða tæplega 170 milljónir íslenskra króna. 

Flóttafólkið sem Rackete flutti að landi mun líklegast vera boðið velkomið í Frakklandi, Þýskalandi, Finnlandi, Lúxemborg og Portúgal.

Fjölmiðlamenn safnast saman fyrir utan dómstólinn í dag.
Fjölmiðlamenn safnast saman fyrir utan dómstólinn í dag. AFP
mbl.is