„Sökin er okkar,“ segir forseti El Salvador

Nayib Bukele tók við embættinu fyrir mánuði og lofar að …
Nayib Bukele tók við embættinu fyrir mánuði og lofar að gera El Salvador að betra og öruggara landi. AFP

Forseti El Salvador segir landi hans um að kenna að Óscar Martínez og Valeria dóttir hans drukknuðu í Rio Grande við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna.

Nayib Bukele segir í viðtali við BBC að það væri á ábyrgð ríkisstjórnar El Salvador að laga þau vandamál sem neyða fólk til þess að flytjast búferlum til annarra landa, líkt og Óscar reyndi að gera í leit að betra lífi fyrir sig og dóttur sína.

Bukele tók við forsetaembættinu fyrir mánuði og lofar að gera El Salvador að betra og öruggara landi.

„Fólk flýr ekki heimili sín vegna þess að það langar til þess, fólk flýr heimili sín vegna þess að það þarf þess. Hvers vegna? Því það hefur ekki vinnu, því er hótað af gengjum, því það hefur ekki aðgang að hlutum eins og vatni, menntun og heilsu,“ segir Bukele.

„Við getum kennt hvaða öðru landi sem er um, en hvað um okkar sök? Hvaða land flúðu þau? Flúðu þau Bandaríkin? Þau flúðu El Salvador, þau flúðu landið okkar. Sökin er okkar.“

Bukele segist þó fordæma meðferð Mexíkó og Bandaríkjanna á flóttafólki sem þangað leitar, en ítrekaði að El Salvador þyrfti fyrst og fremst að líta inn á við og gera landið að betri íbúðarstað.

mbl.is