Gera grín að dauða flóttafólks

Félagar lokaðs Facebook-hóps landamæravarða telja 9.500.
Félagar lokaðs Facebook-hóps landamæravarða telja 9.500. AFP

Leynilegur Facebook-hópur er nú til rannsóknar hjá Landamæraeftirliti Bandaríkjanna, en þar eru núverandi og fyrrverandi starfsmenn eftirlitsins sagðir gera grín að dauða flóttafólks og hafa uppi niðrandi athugasemdir um þingmenn af rómönskum uppruna.

Í hópnum eru 9.500 manns og samkvæmt umfjöllun ProPublica segir Landamæraeftirlitið færslurnar „fullkomlega óviðeigandi“ og að hver sá starfsmaður sem hafi brotið gegn hegðunarreglum muni þurfa að taka afleiðingunum.

Meðal þess sem er til umræðu í hópnum er heimsókn nokkurra bandarískra þingmanna í landamæraeftirlitsstöðvar í Texas, en þar eru þær Alexandria Ocasio-Cortez og Veronica Escobar m.a. kallaðar hórur og lagt til að vefjum (e. burrito) verði í þær kastað.

Ocasio-Cortez hefur tjáð sig um færslurnar á Twitter og segir umræður hópsins ekki koma sér á óvart eftir heimsóknina. 

Bandarísk stjórnvöld hafa lengi verið gagnrýnd fyrir að láta viðgangast slæma meðferð á flóttamönnum í landamærastöðvum sínum, en fjöldi barna hefur látið þar lífið undanfarna mánuði.

mbl.is