Lagarde yfir Evrópska seðlabankann

Christine Lagarde, næsti forseti Evrópska seðlabankans.
Christine Lagarde, næsti forseti Evrópska seðlabankans. AFP

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefur verið skipuð forseti Evrópska seðlabankans og mun víkja tímabundið úr stöðu sinni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum af þeim sökum. Þetta liggur fyrir nú þegar að leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins hafa komist að niðurstöðu um hverjir taka við æðstu embættum sambandsins.

Leiðtogaráð Evrópusambandsins hefur fundað stíft síðustu daga til að komast að niðurstöðu um hverjir skuli taka við stjórn þess næstu fimm árin, í kjölfar Evrópuþingkosninga í vor.

Oddvitafyrirkomulagið sniðgengið

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, verður næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, fyrst kvenna, en hún tekur þá við af Jean-Claude Juncker, að því gefnu að Evrópuþingið samþykki tilnefningu hennar.

Embættið er annað tveggja valdamestu innan sambandsins ásamt forseta leiðtogaráðsins. Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu og meðlimur bandalags frjálslyndra (Renew Europe, áður ALDE) mun láta af embætti og taka við sem forseti leiðtogaráðsins af Pólverjanum Donald Tusk sem lætur af störfum 1. nóvember.

Josep Borell, utanríkisráðherra Spánar og jafnaðarmaður, verður utanríkisstjóri í nýrri framkvæmdastjórn og tekur við af Ítalanum Federicu Mogherini.

Ursula von der Leyen, næsti forseti framkvæmdastjórnar ESB, kemur úr …
Ursula von der Leyen, næsti forseti framkvæmdastjórnar ESB, kemur úr röðum Kristilega demókrataflokks Angelu Merkel. Hún er fyrsta konan til að gegna öðru tveggja mikilvægustu embætta sambandsins. AFP

Ákvörðunin um að skipa von der Leyen kemur mörgum í opna skjöldu, ekki síst vegna þess að von der Leyen var ekki oddviti neins bandalags í Evrópuþingkosningunum í maí, en samkvæmt Lissabon-sáttmálanum ber leiðtogaráðinu að hafa niðurstöður kosninganna til hliðsjónar við skipan framkvæmdastjórnarinnar. Buðu flokkabandalögin á þinginu enda fram sína oddvita (spitzenkandidat) til starfsins, samkvæmt oddvitafyrirkomulaginu svokallaða.

Svo gæti farið að Evrópuþingið hafni útnefningu von der Leyen og mun málið þá sennilega enda á borði leiðtogaráðsins á ný. Evrópuþingmenn hafa margir hverjir, frá því oddvitafyrirkomulagið var tekið upp árið 2014, lagt mikla áherslu á að leiðtogaráðið virði það og skipi einn af oddvitum flokkabandalaganna í embættið.

Þá verður niðurstaðan að teljast vonbrigði fyrir frjálslynda bandalagið og Dani, en vonir höfðu verið bundnar við að Margrethe Vestager, samkeppnisstjóri ESB, yrði skipuð næsti forseti framkvæmdastjórnarinnar. Þess í stað verður hún varaforseti framkvæmdastjórnarinnar.

Vestager þykir hafa staðið sig feikivel í aðgerðum gegn skipulögðum skattsvikum stórfyrirtækja og hafði Mette Frederiksen, nýr forsætisráðherra Danmerkur, lýst yfir stuðningi við hana þótt Vestager sé ekki jafnaðarmaður, líkt og forsætisráðherrann, heldur tilheyri bandalagi frjálslyndra, Renew Europe (áður ALDE).

Vestager var áður viðskiptaráðherra Danmerkur í ríkisstjórn Helle-Thorning Schmidt og sat á þingi fyrir miðjuflokkinn Radikale Venstre.

Ekki samstaða um Timmermans 

Leiðtogafundur Evrópusambandsins hófst um helgina, en hann sækja ýmist forsetar eða forsætisráðherrar aðildarríkja eftir stjórnskipan hvers lands. Í fyrstu var talið að Frans Timmermans, leiðtogi jafnaðarmanna í þingkosningunum og frambjóðandi þeirra í embættið, yrði skipaður forseti framkvæmdastjórnarinnar en ekki náðist samkomulag um það vegna andstöðu nokkurra ríkja, einkum Austur-Evrópuríkja sem vildu sjá fulltrúa hægribandalagsins, EPP, yfir framkvæmdastjórninni.

Hægribandalagið hefur ráðið lögum og lofum innan sambandsins undanfarin ár en á nýliðnu kjörtímabili komu forsetar framkvæmdastjórnarinnar, leiðtogaráðsins og Evrópuþingsins allir úr þeirra röðum, eftir að jafnaðarmaðurinn Martin Schulz lét af störfum sem þingforseti á miðju kjörtímabili til að taka þátt í pólitíkinni heima í Þýskalandi.

Nýtt þing Evrópusambandsins var sett í dag eftir þingkosningar í …
Nýtt þing Evrópusambandsins var sett í dag eftir þingkosningar í maí. Lagt var upp með að leiðtogaráðið kæmi sér saman um útnefningu embættismanna áður en að því kæmi. AFP
mbl.is