Biðja Breta um að skipta sér ekki af

Þessi mynd var tekin í húsakynnum löggjafarsamkomunnar í Hong Kong …
Þessi mynd var tekin í húsakynnum löggjafarsamkomunnar í Hong Kong í dag. Bretar hafa hvatt Kínverja til að veita íbúum Hong Kong áheyrn, en því hefur verið tekið fálega. AFP

Sendiherra Kínverja í Bretlandi varaði bresk stjórnvöld við því að skipta sér af innanríkismálum Kínverja í dag og sagði ummæli Jeremy Hunt utanríkisráðherra Bretlands um stöðuna í Hong Kong hafa „skaðað“ samskipti ríkjanna tveggja.

Sendiherrann, Liu Xiaoming, var í kjölfarið boðaður á fund í breska utanríkisráðuneytinu, þar sem hann fékk bágt fyrir.

Á vef BBC segir að talsmaður utanríkisráðuneytisins breska hafi lýst því yfir að yfirmaður bresku utanríkisþjónustunnar, Sir Simon McDonald, hafi sagt sendiherranum að ummæli hans hefðu verið „óásættanleg og ónákvæm“.

Jeremy Hunt hefur undanfarna daga bæði hvatt mótmælendur í Hong Kong til þess að fara fram af friðsemd með kröfur sínar, en einnig hvatt kínversk stjórnvöld til þess að hlusta á íbúa Hong Kong, sem hafa flykkst út á götur í nærri heilan mánuð til þess að mótmæla umdeildu lagafrumvarpi, sem myndi gera kínverskum stjórnvöldum hægara um vik að fá íbúa í Hong Kong framselda til kínverska meginlandsins.

Á vef BBC er haft er eftir James Landale, fréttaritara BBC sem sérhæfir sig í alþjóðamálum, að ekki einungis hafi kínverski sendiherrann í Lundúnum verið harðorður í garð Breta, heldur hafi yfirlýsingum Hunt einnig verið mótmælt formlega af stjórnvöldum í Peking og Hong Kong.

„Öll kínverska vélin“ sé þannig ósátt við Breta, segir Landale, sem telur að málið gæti litað samskipti ríkjanna tveggja á næstunni.

Unnið að viðgerðum á ytra byrði þinghússins í Hong Kong …
Unnið að viðgerðum á ytra byrði þinghússins í Hong Kong í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert