Tímabært að hlusta á Íslendinga

Filippeysk börn að leik.
Filippeysk börn að leik. AFP

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch leggja til að farin verði sú leið sem íslensk stjórnvöld hafa lagt til í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, þar sem mannréttindastjóra SÞ yrði falið að rannsaka „stríðið gegn eiturlyfjum“ sem nú er háð á Filippseyjum.

Greinina ritar Carlos H. Conde, rannsakandi hjá Human Rights Watch. Þar er farið yfir nýjustu vendingar í krossför Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, gegn eiturlyfjum en þúsundir hafa látið lífið frá því hún hófst fyrir þremur árum.

Hefur forsetinn enda hvatt almenna borgara til að drepa grunaða glæpamenn og eiturlyfjafíkla. Þá er uppi rökstuddur grunur hjá mannréttindasamtökum um að lögregla taki reglulega óvopnað fólk af lífi og komi byssum og eiturlyfjum síðan fyrir í húsi þess eftir á til að réttléta verknaðinn.

Dauði þriggja ára stúlku vekur óhug

Á sunnudag lést þriggja ára stúlka, Myka Ulpina, eftir að hafa verið skotin af lögreglu. Faðir hennar var þó skotmarkið og heldur lögregla því fram að hann hafi notað dótturina sem skjöld. Flestir þeirra sem látið hafa lífið í eiturlyfjaherferð Duterte, þar á meðal börn líkt og Myka, búa í fátækrahverfum. Játa stjórnvöld að í það minnsta 6.600 hafi dáið en sumir áætla að fjöldin sé allt að fjórfaldur á við það. Höfundur nefnir fleiri dæmi um börn, sem látið hafa lífið í aðgerðum lögreglu, og segir að þau gefi tilefni til að styðja ályktun Íslands.

Tilkynnt var að ályktunin yrði lögð fram 25. júní af fulltrúa Íslands, deildarstjóra mannréttindamála í utanríkisráðuneytinu. Lögðu Íslendingar þar til að mannréttindastjóri SÞ léti útbúa skýrslu um stöðu mannréttinda í landinu einkum með hliðsjón af hinu meinta stríði gegn eiturlyfjum sem hefur kostað svo marga lífið.

Mótmælendur í Manila, höfuðborg Filippseyja, kveikja í veggspjöldum af forsetanum, …
Mótmælendur í Manila, höfuðborg Filippseyja, kveikja í veggspjöldum af forsetanum, Duterte, og kollega hans, Xi Jinping Kínaforseta. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina