Fylgið í sögulegri lægð

Jeremy Corbyn hefur verið leiðtogi breska Verkamannaflokksins frá árinu 2015, …
Jeremy Corbyn hefur verið leiðtogi breska Verkamannaflokksins frá árinu 2015, en fylgi flokksins mælist nú í sögulegri lægð undir forystu hans. AFP

Fylgi breska Verkamannaflokksins er í sögulegri lægð ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins YouGov, en samkvæmt þeim er flokkurinn nú fjórði stærsti flokkur Bretlands en hefur sögulega verið annaðhvort stærsti eða næststærsti flokkurinn.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Verkamannaflokkurinn undir forystu Jeremys Corbyn mælist nú aðeins með 18% fylgi og hefur fylgið ekki mælst svo lágt síðan árið 2009 þegar flokkurinn hafði verið í ríkisstjórn í tólf ár og Gordon Brown leiddi hann. Fylgi Verkamannaflokksins þá hafði aldrei mælst lægra í könnunum.

Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, vill leiða breska Íhaldsflokkinn.
Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, vill leiða breska Íhaldsflokkinn. AFP

Breski Íhaldsflokkurinn mælist með mest fylgi eða 24% og kemur Brexitflokkurinn, sem stofnaður var fyrr á þessu ári undir forystu Nigels Farage og hefur þá stefnu að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án sérstaks útgöngusamnings við sambandið, næstur með 23%. Frjálslyndir demókratar mælast þriðji stærsti flokkurinn með 20% fylgi.

Verkamannaflokkurinn hefur tapað miklu fylgi bæði á meðal stuðningsmanna þess að Bretland verði áfram innan Evrópusambandsins og þeirra sem vilja yfirgefa sambandið. Stefna Verkamannaflokksins í þeim efnum hefur þótt mjög óljós auk þess sem forysta flokksins hefur verið gagnrýnd fyrir að taka ekki á gyðingaandúð í röðum hans.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, vill einnig leiða Íhaldsflokkinn.
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, vill einnig leiða Íhaldsflokkinn. AFP

Fylgi Frjálslyndra demókrata hefur aukist töluvert en þeir hafa einkum laðað til sín fylgi úr röðum þeirra sem vilja að Bretar verði áfram innan Evrópusambandsins. Hefur flokkurinn lagt áherslu á að Bretland verði áfram innan sambandsins þvert á niðurstöður þjóðaratkvæðisins í Bretlandi sumarið 2016 þar sem meirihluti kjósenda vildi yfirgefa það.

Leiðtogaval stendur yfir innan Íhaldsflokksins þar sem valið stendur á milli þeirra Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Jeremys Hunt, núverandi ráðherra utanríkismála. Hvort nýjum leiðtoga flokksins, og þar með forsætisráðherra Bretlands, tekst að auka fylgi Íhaldsflokksins á eftir að koma í ljós en niðurstaða valsins verður kynnt 22. júlí.

Nigel Farage, leiðtogi Brexitflokksins, hefur ástæðu til að brosa yfir …
Nigel Farage, leiðtogi Brexitflokksins, hefur ástæðu til að brosa yfir fylgi flokks síns. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert