Afstaðan gagnvart Kína og HK óbreytt

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands. Kristinn Magnússon

Íslensk stjórnvöld hafa tjáð sig um ólguna í Hong Kong þar sem fjölmenn mótmæli hafa farið fram, bæði framsamlega og ófriðsamlega. Íslensk stjórnvöld virða réttinn til friðsamlegra mótmæla en hvetja til stillingar. Þetta kemur fram í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins til mbl.is.

Íslensk stjórnvöld ganga því töluvert skemur Donald Trump Bandaríkjaforseti og Jeremy Hunt, ut­an­rík­is­ráðherra Bret­lands sem hafa báðir lýst yfir stuðningi við mótmælendur.

Mótmælt hefur verið reglulega í Hong Kong síðan 9. júní vegna frumvarps sem yfirvöld hugðust leggja fram og hefði heimilað framsal afbrotamanna frá Hong Kong til Kína. Margir töldu að um einhvers konar trójuhest væri að ræða sem auðveldaði kínverskum yfirvöldum að herja á pólitíska andstæðinga sína og minnihlutahópa.

Carrie Lam, ríkisstjóri sjálfstjórnarhéraðsins, hefur dregið frumvarpið til baka en neitar að lofa því að það verði ekki sett aftur á dagskrá á næsta kjörtímabili. Því hafa mótmælin haldið áfram.Mótmælendur krefjast einnig afsagnar Lam og afsökunarbeiðni frá henni. Þá vilja þeir að handteknum mótmælendum verði sleppt úr haldi lögreglu.

Afstaða íslenskra stjórnvalda óbreytt

Í svari utanríkisráðuneytisins við skriflegri fyrirspurn mbl.is segir:

„Íslensk stjórnvöld hafa fylgst með stöðu og þróun mála í Hong Kong frá því mótmæli brutust þar út í síðasta mánuði, og beinast einkum að ríkisstjóra sjálfstjórnarhéraðsins vegna frumvarps um framsal sakamanna.“

Utanríkisráðuneytið hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ástandsins í Hong …
Utanríkisráðuneytið hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ástandsins í Hong Kong. mbl.is/Hjörtur

„Það er lýðræðislegur og borgaralegur réttur almennings hvarvetna að geta mótmælt með friðsamlegum hætti fyrirhuguðum stjórnvaldsaðgerðum. Því er mikilvægt að slíkur réttur sé virtur og, einnig, að mótmælendur haldi sig við friðsamlegar aðgerðir í kröfum sínum. Íslensk stjórnvöld hvetja því til stillingar og að aðilar forðist frekari stigmögnun og ofbeldi.“  

„Afstaða Íslands gagnvart Kína og Hong Kong er óbreytt. Ísland styður eitt Kína og sjálfstjórnarstöðu Hong Kong þar innan (e. One China, Two systems) í samræmi við samninga þar að lútandi.“

Kínverskir þingmenn í heimsókn á Íslandi

Varaforseti kínverska þingsins var í heimsókn hér á landi fyrr í vikunni ásamt nokkrum kínverskum þingmönnum. Tilefni heimsóknarinnar er ekki ljóst eða hvort þeir séu farnir úr landi. Vitað er að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fundaði með hópnum.

mbl.is náði hvorki tali af Steingrími né Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra Íslands, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir við vinnslu fréttarinnar. Þá óskaði mbl.is eftir að ná tali af utanríkisráðherra en einungis reyndist unnt að fá skrifleg svör frá ráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert