Venesúela fyrir mannréttindaráð SÞ

Her Venesúela er enn hliðhollur Nicolas Maduro forseta.
Her Venesúela er enn hliðhollur Nicolas Maduro forseta. AFP

Venesúelsk stjórnvöld eru sökuð um hræðsluáróður ólögmæt manndráp í tilraunum sínum til að halda völdum í landinu í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. 

Samkvæmt skýrslunni, sem fjallað er um á vef BBC, eru fórnarlömb hers og lögreglu gjarnan handtekin og þau skotin, en átt við vettvanginn þannig að útlit er fyrir að þau hafi veitt mótstöðu við handtöku.

Sameinuðu þjóðirnar hvetja stjórnvöld í Venesúela til þess að láta af alvarlegum brotum gegn réttindum íbúa, en ríkisstjórn landsins segir skýrsluna brenglaða og hlutdræga.

Ófremdarástand hefur ríkt í Venesúela síðan þingforsetinn Juan Guaidó lýsti sig starfandi forseta landsins í janúar, en yfir fimmtíu ríki hafa lýst yfir stuðningi sínum við stjórn hans. Nicolas Maduro forseti nýtur hins vegar enn stuðnings hersins, sem og mikilvægra bandamanna á borð við Kína og Rússland.

Fjórar milljónir íbúa hafa flúið Venesúela síðan 2015 vegna efnahagskreppa sem leitt hafa af sér mikið atvinnuleysi og viðvarandi skort á matvælum og lyfjum.

Skýrsla þessi verður kynnt fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag, en hún byggir á 558 viðtölum við vitni að mannréttindabrotum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert