Ástralinn sakaður um njósnir

Alek Sigley á flugvellinum í Beij­ing í Kína. Hann vildi …
Alek Sigley á flugvellinum í Beij­ing í Kína. Hann vildi ekki tjá sig við fjölmiðla um síðustu vikur. AFP

Ástralskur háskólanemi, sem birtist skyndilega í borginni Beij­ing í Kína í lok vikunnar eftir að ekkert hafði spurst til hans frá 23. júní, var njósnari í Norður-Kóreu. Þetta kemur fram í ríkisfjölmiðli landsins.

Ekkert spurðist til hins 29 ára gamla Alek Sigley í tæpar tvær vikur og fjölskylda hans óttaðist mjög um afdrif hans. 

Sam­kvæmt rík­is­frétta­stof­unni KCNA viðurkenndi Sigley njósnir. „Hann safnaði alþjóðlegum upplýsingum um okkur og deildi með öðrum. Hann baðst ítrekað afsökunar á því að brjóta á okkur,“ kom meðal annars fram í norðurkóreska ríkismiðlinum.

Þar kom fram að Sigley, sem er einn af fáum Vesturlandabúum sem fékk að stunda nám í Norður-Kóreu, hafi verið hnepptur í varðhald 25. júní fyrir að hafa uppi áróður gegn landinu á veraldarvefnum og hafi dreift fréttum til miðla sem eru andsnúnir kommúnistastjórninni í Norður-Kóreu.

Sigley hafi skoðað hvern krók og kima í Pyongyang, höfuðborg landsins, þar sem hann hafi tekið myndir og skrifað niður lýsingar. Þeim hafi hann deilt áfram.

KCNA segir að nemanum hafi verið vísað úr landi af mannúðarástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert