Jarðskjálfti 7,1 að stærð í Kaliforníu

Sprungur mynduðust í þjóðveginum skammt frá borginni Ridgecrest þar sem …
Sprungur mynduðust í þjóðveginum skammt frá borginni Ridgecrest þar sem upptök skjálftans voru. AFP

Öflugur jarðskjálfti, 7,1 að stærð, varð í suðurhluta Kaliforníu á níunda tímanum að staðartíma, eða á fjórða tímanum í nótt að íslenskum tíma. Þetta er stærsti skjálftinn á svæðinu í tvo áratugi, en aðeins eru tveir sólarhringar síðan annar öflugur skjálfti, 6,4 að stærð, reið yfir sama svæði. 

Upptök skjálftans voru nærri borginni Ridgecrest, um 240 kílómetra norðaustur af Los Angeles, þar sem vel fannst fyrir skjálftanum, sem og í Las Vegas. Ekki hafa borist tilkynningar um manntjón eða skemmdir á mannvirkjum vegna skjálftans.

Jarðskjálftinn hafði þó ýmisleg áhrif og fresta þurfti leik New Orleans Pelicans og New York Knicks í sumardeild NBA eftir að jarðskjálftinn reið yfir, en hann varði í um tíu sekúndur. 

Dómarar og eftirlitsmenn stöðvuðu leik New Orleans Pelicans og New …
Dómarar og eftirlitsmenn stöðvuðu leik New Orleans Pelicans og New York Knicks í sumardeild NBA eftir að jarðskjálftinn reið yfir, en hann fannst vel í Las Vegas þar sem leikurinn fór fram. AFP

Slökkviliðið í San Bernardino-sýslu greinir frá því á Twitter að heimili hafi skolfið og að sprungur hafi myndast í byggingum og á vegum. Engar meiri háttar tilkynningar um tjón hafa borist en ljóst er þó að tjónið sé meira en í skjálftanum í fyrradag. Um 2.000 manns eru til að mynda án rafmagns í Kern-sýslu og þá hafa borist nokkrar tilkynningar um eldsvoða í kjölfar skjálftans. 

Skjálftinn í nótt var ellefu sinnum sterkari en sá á fimmtudag. „Þetta er jarðskjálftahrina. Þessir jarðskjálftar tengjast,“ segir Lucy Jones, jarðskjálftafræðingur við Caltech-háskólann. Hún segir um tíu prósent líkur á að annar skjálfti, 7 eða stærri, geti fylgt í kjölfarið. 

Íbúar í suðurhluta Kaliforníu hafa verið iðnir við að deila upplifun sinni af skjálftanum á samfélagsmiðlum, ekki síst af yfirflæðandi sundlaugum: 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert