Lagði að bryggju þrátt fyrir bann

Björgunarskútan The Alex leggst við bryggju á ítölsku eyjunni Lampedusa …
Björgunarskútan The Alex leggst við bryggju á ítölsku eyjunni Lampedusa þrátt fyrir bann yfirvalda. EPA

Skipstjóri skútunnar The Alex lagði að bryggju á ítölsku eyjunni Lampedusa í dag, en um borð í skútunni eru meðal annars 41 flóttamaður sem áhöfn skútunnar bjargaði í Miðjarðarhafi. Greint er frá málinu á vef BBC.

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, hefur sagt að komið verði í veg fyrir að fólkið fari frá borði og á ítalska grundu. Standa lögreglumenn á bryggjunni og hamla fólkinu að fara frá borði.

Skipstjóri skútunnar segir að hann hafi ákveðið að sigla af alþjóðlega hafsvæðinu utan við eyjuna og leggjast að bryggju vegna „óbærilegra hreinlætisaðstæðna“ um borð.

Hjálparsamtökin Mediterranea, sem reka skipið, sögðu á Twitter-reikningi sínum að áhöfn skútunnar hefði þurft að búa við óraunverulegar aðstæður og að bið þeirra hafi verið „óþarfa grimmd“.

Annað skip á vegum þýskra hjálparsamtaka er rétt fyrir utan eyjuna, en um borð eru aðrir 65 flóttamenn.

Ítalía hefur verið einn af helstu áfangastöðum flóttafólks sem reynir að komast til Evrópu frá Afríku, aðallega frá Líbýu. Í síðasta mánuði samþykkti ríkisstjórn Ítalíu að sekta sjóför sem kæmu í ítalskar hafnir um allt að 50 þúsund evrur.

Fyrir viku lagðist annað skip hjálparsamtaka, Sea-Watch 3, að bryggju í Lampedusa, en þá hafði það beðið á alþjóðlegu hafsvæði nærri eyjunni í tvær vikur með flóttafólk. Skipstjórinn var handtekinn ásakaður um að hafa reynt að stefna lífi lögreglunnar í hættu og þá var reynt að sökkva skipinu. Dómari taldi hins vegar ekki ástæður til þess að halda skipstjóranum í haldi, en hún getur engu að síður átt von á sektum fyrir að aðstoða smyglara.

Skipstjóri The Alex lét vita af áformum sínum fyrr í dag og sagði Salvini þá á Twitter að lögreglan væri tilbúin að bregðast við.

mbl.is