Þagði um misnotkun og fékk væna summu

Larry Nassar misnotaði bandarískar fimleikakonur þegar hann starfaði sem læknir …
Larry Nassar misnotaði bandarískar fimleikakonur þegar hann starfaði sem læknir landsliðsins. AFP

Fyrrverandi framkvæmdastjóri bandarísku ólympíunefndarinnar, sem hélt ásökunum vegna kynferðislegrar misnotkunar læknisins Larry Nassar leyndum, fékk 2,4 milljónir bandaríkjadala í starfslokasamning.

Scott Blackmun sagði starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri ólympíunefndarinnar í fyrra og sagði starfslokin tengd slæmri heilsu. Nassar misnotaði fleiri fimleikakonur kynferðislega eftir að Blackmun fékk vitneskju um málið.

Blackmun sagði upp störfum eftir að hafa verið gagnrýndur fyrir það hvernig nefndin tók á málinu. Nassar var dæmdur í 40 til 175 ára fang­elsi fyr­ir að hafa mis­notað á þriðja hundrað fimleikakvenna kynferðislega.

Meðal fórnarlamba voru nokkrar stjörnur bandaríska fimleikaliðsins sem vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í London 2012 og Ríó fjórum árum síðar.

Nefnd sem var fengin til að rannsaka hvernig Nassar gat misnotað konurnar í áraraðir komst að því að Blackmun hefði frétt af ásökunum þess efnis á hendur lækninum árið 2015. Þeim upplýsingum hafi hann haldið fyrir sjálfan sig. 

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að athafnaleysi hans hafi haft afleiðingar en Nassar misnotaði fleiri konur árin 2015 og 2016.

„Blackmun vissi að Nassar var barnaníðingur árið 2015. Hann leyndi þeirri vitneskju fyrir öllum,“ sagði John Manly, lögmaður margra fórnarlamba Nassar.

„Í stað þess að fara í fangelsi fær hann 2,4 milljóna greiðslu,“ sagði Manly og bætti við að nú væri nóg komið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert