Auðga úran umfram heimild

Stjórnvöld í Íran tilkynntu í morgun að þau muni „innan …
Stjórnvöld í Íran tilkynntu í morgun að þau muni „innan nokkurra klukkustunda“ hefja framleiðslu á auðguðu úrani umfram það sem ríkinu er heimilt að framleiða, samkvæmt kjarn­orku­samn­ingn­um sem gerður var við Íran 2015. AFP

Stjórnvöld í Íran munu „innan nokkurra klukkustunda“ hefja framleiðslu á auðguðu úrani umfram það sem ríkinu er heimilt að framleiða, samkvæmt kjarn­orku­samn­ingn­um sem gerður var við Íran 2015. Frá þessu greindi fulltrúi Íransstjórnar í sjónvarpsávarpi í morgun. 

Það merk­ir að Íran mun búa yfir meira en 300 kílóum af auðguðu úrani sem er notað sem eldsneyti í kjarn­orku­ver, en 1.050 kíló eru tal­in nauðsyn­leg til þess að búa til kjarn­orku­vopn.

Spennan í samskiptum Bandaríkjanna og Írans hefur farið stigvaxandi síðustu vikur og tilkynnti Kjarn­orku­mála­stofn­un Sam­einuðu þjóðanna fyrir helgi að hún hygðist halda neyðar­fund vegna kjarn­orku­áætlun­ar Írans í næstu viku. 

Þetta er annar skilmáli samningsins sem írönsk stjórnmál brjóta eftir að Íran jók fram­leiðslu auðgaðs úr­ans þegar Don­ald Trump, for­seti Banda­ríkj­anna, ákvað að beita land­ið efna­hagsþving­un­um. Evr­ópu­ríki sem eru aðilar að samn­ingn­um við Íran hafa varað við því að brot á skil­mál­um hans mun hafa af­leiðing­ar.

Utanríkisráðherra Írans, Abbas Aragchi, sagði á blaðamannafundi í morgun að fleiri skilmálar samningsins verði brotnir ef ríkin sem eiga aðild að samningnum komast ekki að samkomulagi innan tveggja mánaða. 

Bret­land, Þýska­land, Frakk­land, Kína og Rúss­land eru enn aðilar að um­rædd­um samn­ingi. Í gærkvöldi samþykktu stjórnvöld í Frakklandi og Íran að endurskoða aðstæður til viðræðna um samninginn. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hringdi í Hassan Rouhani, forseta Írans, í gærkvöldi þar sem hann lýsti þungum áhyggjum vegna mögulegra afleiðinga sem gætu orðið ef kjarnorkusamningnum yrði alfarið rift.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert