Grikkir ganga til kosninga

Kyriakos Mitsotakis, leiðtogi Nýja lýðveldisflokksins, er búinn að nýta kosningaréttinn. …
Kyriakos Mitsotakis, leiðtogi Nýja lýðveldisflokksins, er búinn að nýta kosningaréttinn. Líklegt er talið að flokkur hans muni fagna góðu gengi í þingkosningunum sem fram fara í Grikklandi í dag. AFP

Grikkir ganga til þingkosninga í dag og útlit er fyrir að fjögurra ára valdatímabili Alexis Tsipras forsætisráðherra og flokks hans, Syriza, ljúki og að Nýi lýðveldisflokkur Kyriakos Mitsotakis taki við stjórnartaumunum. 

Tsipras boðaði til kosninga eftir að flokkur hans tapaði miklu fylgi í Evrópuþingkosningunum í vor. Syriza hlaut 23,78% atkvæða en Nýi lýðveldisflokkurinn 33,11% og því er búist við góðu gengi hans í kosningunum. 

Mitsotakis lofar lægri sköttum, frekari einkavæðingu á opinberri þjónustu og samningaviðræðum við lánardrottna landsins sem heimila frekari fjárfestingar í landinu. 

Tsipras lofar frekari fjárfestingum sem og hærri ellilífeyri. 

Þingkosningarnar eru þær sjöttu frá efnahagshruninu 2008, en Grikkir fóru einna verst út úr hruninu og nutu efnahagsaðstoðar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópusambandinu og Seðlabanka Evrópu í formi neyðarlána. Um var að ræða stærstu efna­hags­stoð sem veitt hef­ur verið í sög­unni og alls fengu Grikk­ir að láni 260 millj­arða evra á átta ára tíma­bili.

Kjörstaðir opnuðu klukkan sjö að staðartíma í morgun. Talið er að veðrið geti haft áhrif á kjörsókn en 35 stiga hiti er víðast hvar í landinu og telja sérfræðingar að það geti haft letjandi áhrif á kjósendur. 

Þriggja prósenta kosningu þarf til að ná þingsæti. Flokkurinn sem hlýtur mest fylgi fær 50 þingsæti til viðbótar að launum en 151 þingsæti þarf til að ná meirihluta á þinginu.

mbl.is
Loka