Metánægja með Trump

Metánægja mælist með störf Donalds Trump Bandaríkjaforseta, en þó eru …
Metánægja mælist með störf Donalds Trump Bandaríkjaforseta, en þó eru eftir sem áður fleiri óánægðir með hann. AFP

44% aðspurðra Bandaríkjamanna eru ánægðir með frammistöðu Donalds Trump Bandaríkjaforseta nú þegar eitt og hálft ár lifir kjörtímabils. Þetta kemur fram í nýrrri könnun ABC-sjónvarpsstöðvarinnar og dagblaðsins Washington Post, en forsetinn hefur aldrei skorað jafnhátt í reglubundnum könnunum miðlanna.

Ánægja með Trump eykst um fimm prósentustig frá síðustu könnun í apríl, og er nú tveimur prósentustigum meiri en fyrra met sem náðist í upphafi kjörtímabils. Eftir sem áður eru þó fleiri ósáttir en sáttir við störf forsetans og kveðast 53% vera svo. Er Trump fyrsti forsetinn í sögu nútímaskoðanakannana til að halda meirihluta kjósenda óánægðum samfleytt svo lengi – í það minnsta í skoðanakönnunum.

Til samanburðar voru 54% ánægð með störf Baracks Obama, og 42% óánægð, þegar jafnlangt var liðið á fyrsta kjörtímabil hans í embætti.

Einnig var spurt út í ánægju með störf forsetans á ólíkum sviðum, og kennir þar ýmissa grasa. Ánægðastir eru kjósendur með stjórn Trump í efnahagsmálum, en 51% aðspurðra eru ánægðir með hana. 42% segjast ánægð með stjórn forsetans á skattamálum, en verst kemur hann út í umhverfismálum þar sem einungis 29% lýsa yfir ánægju með störf forsetans á sviði hlýnunar jarðar.

Þá segja 65% þátttakenda að Trump hafi ekki hagað sér eins og forseta sæmir (e. acted unpresidential) frá því hann tók við embætti í janúar 2017, samanborið við 28% sem telja hegðun hans í samræmi við embættið.

Biden mælist með gott forskot

Þótt forsetinn geti leyft sér að gleðjast yfir metstuðningi, kann samanburður á honum og forsetaefnum Demókrataflokksins að valda áhyggjum úr herbúðum Trump.

Þegar Trump var stillt upp sem valkosti gegn tilteknum forsetaframbjóðanda repúblikana sögðust 14 prósentustigum fleiri myndu kjósa Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og frambjóðanda í forvali demókrata, en Trump. Þá lýstu 8 prósentustigum fleiri yfir stuðningi við Kamölu Harris en Trump, en Harris er einnig meðal frambjóðenda demókrata.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert