Fékk stúlkurnar til að finna ný fórnarlömb

Frá blaðamannafundi þar sem ákæra á hendur Epstein var tilkynnt.
Frá blaðamannafundi þar sem ákæra á hendur Epstein var tilkynnt. AFP

Jeffrey Epstein bjó til víðfeðmt net fórnarlamba, sem voru stúlkur undir lögaldri, sem hann stundaði kynlíf með og misnotaði kynferðislega. Hann sannfærði sumar stúlkurnar um að útvega sér ný fórnarlömb og greiddi þeim rausnarlega fyrir. Þetta  kemur fram í ákæru á hendur Epstein. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ákæru saksóknara New York-ríkis á hendur Epstein.

Epstein hefur verið ákærður fyrir að eiga samræði við stúlkur undir lögaldri, fyrir mansal og skipulagningu mansals. Meint brot hans áttu sér stað á lúxusheimilum hans í Manhattan í New York-ríki og Palm Beach í Flórída-ríki.

Sjálfur hefur Epstein lýst sig saklausan af ákærunum.

Fékk stúlkurnar til að finna ný fórnarlömb gegn greiðslu

Í ákærunni segir meðal annars: „Jeffrey Epstein hefur um margra ára skeið misnotað stúlkur undir lögaldri á kynferðislegan hátt og nýtt sér yfirburðarstöðu sína gagnvart þeim í kynferðislegum tilgangi á heimilum sínum í Manhattan, New York og Palm Beach, Flórída.“

„Epstein var sérstaklega virkur í brotum sínum á árunum 2002-2005, þegar hann lokkaði og tældi stúlkur undir lögaldri til að heimsækja sig heim í þeim tilgangi að eiga við þær samræði. Fórnarlömb hans fengu mörg hundruð dollara fyrir hvert skipti sem þær áttu samræði við Epstein.“

„Til að sinna eftirspurn sinni réð hann sumar stúlkurnar til að finna ný fórnarlömb og greiddi þeim rausnarlega fyrir. Þannig skapaði hann víðfeðmt net fórnarlamba undir lögaldri sem hann gat misnotað kynferðislega þegar honum þóknaðist.“

Vissi að þær væru undir lögaldri

Stúlkurnar voru sumar hverjar einungis fjórtán ára gamlar þegar Epstein misnotaði þær kynferðislega og margar þeirra voru, af ýmsum ástæðum, sérstaklega berskjaldaðar fyrir klækjabrögðum hans. Hann vissi að stúlkurnar voru undir lögaldri og sótti sérstaklega í stúlkur undir átján ára aldri. Sumar stúlkurnar gáfu honum upp aldur sinn að því er segir í ákærunni.

Meint fórnarlömb Epsteins voru hundelt af fjölmiðlamönnum fyrir utan dómshúsið …
Meint fórnarlömb Epsteins voru hundelt af fjölmiðlamönnum fyrir utan dómshúsið í New York. AFP

Beitti sömu aðferðinni ítrekað

Aðferðin sem Epstein á að hafa beitt var yfirleitt sú sama. Gekk hún út á að finna stúlku undir lögaldri sem hann gat fengið til þess að „nudda“ sig á heimili hans. Voru þær annaðhvort léttklæddar eða naktar meðan á nuddinu stóð. Meðan á athöfninni stóð hóf Epstein að káfa á stúlkunum og kynfærum þeirra og fróa sjálfum sér. Þá bað hann stúlkurnar um að snerta sig og voru kynlífsleikföng oft við höndina.

Eftir hverja einustu heimsókn fékk viðkomandi stúlka nokkur hundruð dollara greiðslu í reiðufé sem annaðhvort Epstein eða starfsmaður á hans vegum innti af hendi. Þrír starfsmenn Epsteins eru tilgreindir í ákærunni en þeir eru ekki nafngreindir heldur auðkenndir sem starfsmaður 1, starfsmaður 2 og starfsmaður 3.

Stöðugt framboð ungra stúlkna

Starfsmenn og viðskiptafélagar Epsteins aðstoðuðu hann við að viðhalda eftirspurn sinni og sáu þeir meðal annars um að vera í símasambandi við stúlkurnar og segja þeim hvenær og hvar þær ættu að hitta Epstein.

Epstein var duglegur að ferðast milli Manhattan og Palm Beach á einkaþotu sinni og sáu starfsmenn hans um að stúlkur væru tiltækar til að hitta hann þegar hann steig úr vélinni.

Þrjú fórnarlömb koma fyrir í ákærunni en þau eru ekki nafngreind heldur auðkennd sem Fórnarlamb undir lögaldri-1 (e. Minor Victim-1) og svo framvegis. Vitnisburður þeirra allra er á þá leið að Epstein hafi greitt þeim fyrir að stunda kynlíf með þeim og að hann hafi misnotað þær kynferðislega. Þá viðurkennir eitt fórnarlambið að hafa fengið tugi stúlkna undir lögaldri til að hitta Epstein í þeim tilgangi að „nudda“ hann gegn greiðslu.

Stúlkurnar voru margar hverjar sérstaklega berskjaldaðar gegn Epstein segir í …
Stúlkurnar voru margar hverjar sérstaklega berskjaldaðar gegn Epstein segir í ákærunni. AFP

Meint barnaníð Epstein er ekki nýtilkomið

Epstein hefur áður verið sakaður um að mis­nota stúlk­ur og slapp við ákæru þess efn­is árið 2008 þegar hann gerði sam­komu­lag við al­rík­is­yf­ir­völd.

Sam­kvæmt sam­komu­lag­inu gekkst Ep­stein við tveim­ur minni brot­um og sat inni vegna þeirra í þrett­án mánuði, en hann hefði átt yfir höfði sér allt að lífstíðarfang­elsi sam­kvæmt hinum ákær­un­um.

Ríkissaksóknari suðurkjördæmis New York-ríkis, Geoffrey Berman, fer yfir ákæruna á …
Ríkissaksóknari suðurkjördæmis New York-ríkis, Geoffrey Berman, fer yfir ákæruna á hendur Epstein á blaðamannafundi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert