Há sekt vegna hakkara

Flugvél British Airways.
Flugvél British Airways. AFP

Flugfélagið British Airways hefur verið sektað um rúmlega 183 milljónir punda eftir að hakkarar stálu greiðslukortaupplýsingum mörg hundruð þúsund viðskiptavina flugfélagsins í lok ágúst og byrjun september í fyrra.

Þetta kom fram í yfirlýsingu frá IAG, móðurfélagi flug­fé­lag­anna Vu­el­ing, Brit­ish Airways og JetS­MART.

Upphæðin jafngildir um 1,5% af hagnaði British Airways árið 2017, samkvæmt frétt AFP.

Willie Walsh, fram­kvæmda­stjóri IAG, sagði að skoðað yrði hvort flugfélagið myndi áfrýja sektinni.

„Ég er hissa og vonsvikinn,“ sagði Alex Cruz, framkvæmdastjóri British Airways, vegna sektarinnar. Hann sagði að flugfélagið hefði brugðist hratt við þegar hakkarar stálu upplýsingum af viðskiptavinum félagsins síðasta sumar.

Stolnu gögnin innihéldu nöfn viðskiptavina, heimilisföng, tölvupóstföng og kreditkortaupplýsingar. Hakkararnir komust ekki yfir ferða- eða vegabréfsupplýsingar. 

British Airways lofaði farþegum bótum vegna málsins og keypti auglýsingar í stærstu dagblöðum Bretlands þar sem flugfélagið baðst afsökunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert