Sakaði fulltrúa Íslands um einelti

Filippseyskir lögreglumenn að störfum í einu af efnaminni hverfum Manila. …
Filippseyskir lögreglumenn að störfum í einu af efnaminni hverfum Manila. Stríð forseta landsins, Rodridgo Duterte, gegn fíkniefnum hefur verið gagnrýnt af mörgum ríkjum. AFP

Sendinefnd Filippseyja rauk út af fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf  í lok síðasta mánaðar er ræða átti þá tillögu Íslands að mann­rétt­inda­stjóra SÞ verði falið að rann­saka „stríðið gegn eit­ur­lyfj­um“ sem nú er háð á Fil­ipps­eyj­um.

Mannréttindaráðið greiðir á fimmtudag atkvæði um tillöguna sem fulltrúar Íslands í ráðinu vinna nú hörðum höndum að að fá samþykkta. Þar er m.a. lagt til að mann­rétt­inda­stjóri SÞ láti út­búa skýrslu um stöðu mann­rétt­inda í land­inu einkum með hliðsjón af hinu meinta stríði gegn eit­ur­lyfj­um sem hef­ur kostað svo marga lífið.

Í grein sem Carlos H. Conde, rann­sak­andi hjá Hum­an Rights Watch, ritar á vefnum Inquirer kveðst hann aldrei hafa orðið vitni að viðlíka uppákomu á fundi mannréttindaráðsins. Segir hann Conde Severo Catura, einn ráðherra filippseysku stjórnarinnar, hafa stormað út af fundinum ásamt sendinefndinni eftir að hafa nýlokið við harðorða árás gegn ályktuninni. Sakaði Severo Ísland og önnur ríki ráðsins þá um einelti í garð filippseyskra stjórnvalda.  

Þremur dögum síðar sakaði Rosario Manolo, fyrrverandi sendiherra Filippseyja og núverandi fulltrúi landsins í sambandi Suðaustur-Asíuríkja, svo Ísland og önnur ríki ráðsins um hræsni og afskipti af málum Filippseyja. Þá fordæmdi hún mannréttindasamtök á Filippseyjum og sakaði þau um sviksemi og að þeim væri borgað fyrir. 

Í tillögu Íslands eru stjórnvöld á Filippseyjum hvött til að leyfa fulltrúum mannréttindaráðsins að koma í heimsókn og kynna sér málið. 32 ríki, sem þó hafa ekki öll atkvæðarétt í ráðinu, hafa þegar lýst yfir stuðningi við tillöguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert