Sex drepnir á dag að meðaltali

Bróðir þriggja ára stúlku sem lést í aðgerðum lögreglu í …
Bróðir þriggja ára stúlku sem lést í aðgerðum lögreglu í úthverfi Manilla fyrr í mánuðinum virðir hér fyrir sér líkkistu hennar. Mynd tekin í gær. AFP

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að stríð Rodrigo Duterte forseta Filippseyja á hendur eiturlyfjum feli í sér kerfisbundin dráp á þarlendum borgurum. 

Amnesty skorar á mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna að samþykkja ályktun íslenskra stjórnvalda í ráðinu um að mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna verði falið að rannsaka gjörðir stjórnvalda.

Í nýrri skýrslu Amnesty um stöðuna á Filippseyjum skoða samtökin andlát 20 manns í Bulacan-héraði nærri höfuðborginni Manilla síðasta árið, en Bulacan er að sögn Amnesty einn blóðugasti vígvöllur stríðs Duterte gegn eiturlyfjum, sem hefur kostað að minnsta kosti 6.600 mannslíf frá því að Duterte tók við völdum, samkvæmt opinberum tölum.

Amnesty segir þó að engin leið sé til þess að segja til um hversu margir hafi látið lífið í aðgerðum stjórnvalda í raun og veru. Þá séu fjöldamörg dæmi um að einstaklingar séu teknir af lífi af lögreglu án dóms og laga og að lögregla komi síðan sönnunargögnum fyrir á heimilum þeirra að þeim látnum.

Í skýrslu Amnesty kemur fram að opinberir starfsmenn séu látnir taka saman sérstaka „eftirlitslista“ fyrir lögreglu, um borgara sem séu eitthvað viðriðnir eiturlyfjanotkun. Þegar einstaklingur er kominn á slíkan lista, er engin leið að losna af honum, ekki einu sinni þó að fólk undirgangist fíknimeðferð og hætti notkun eiturlyfja.

Butch Olano, svæðisstjóri Amnesty International á Filippseyjum. Amnesty segir nægileg …
Butch Olano, svæðisstjóri Amnesty International á Filippseyjum. Amnesty segir nægileg sönnunargögn til þess að álykta að þeir glæpir sem hafa verið framdir geti talist glæpir gegn mannkyni. AFP

Sönnunargögn benda til glæpa gegn mannkyni

Amnesty segir að fjölmiðlar á Filippseyjum hafi misst allan áhuga á drápunum og að yfirvöld geri lítið sem ekkert til þess að veita fíklum viðeigandi meðferðarúrræði.

Þetta verður til þess, að sögn Amnesty, að í landinu hefur skapast árferði algjörs refsileysis, þar sem bæði lögregla og aðrir geta drepið fólk án afleiðinga.

„Það eru nægileg sönnunargögn til þess að álykta að þeir glæpir sem hafa verið framdir gætu talist glæpir gegn mannkyni,“ segir í skýrslu Amnesty.

Búist er við því að kosið verði um tillögu Íslands áður en þessi vika er úti, samkvæmt frétt AFP um málið.

Salvador Panelo, talsmaður Duterte forseta, sagði í dag að Amnesty væru „óforbetranleg“ samtök sem séu að „stjórnmálavæða“ „svokölluð dráp án dóms og laga“ á Filippseyjum og að „skekkt“ umfjöllun mannréttindasamtakanna byggðist á fordómum. Lögregla dræpi eingöngu fólk í sjálfsvörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert