Ástralinn segist ekki vera njósnari

Alek Sigley við komuna til Peking 4. júlí.
Alek Sigley við komuna til Peking 4. júlí. AFP

Ástralski háskólaneminn, Alek Sigley, sem stundaði nám í  Norður-Kóreu, hvarf í tvær vikur, birtist skyndilega í Peking og var svo sakaður um njósnir af yfirvöldum í Norður-Kóreu þvertekur fyrir þær fullyrðingar að hann sé njósnari.

„Þær ásakanir um að ég sé njósnari eru (nokkuð augljóslega) falskar,“ skrifaði hann í færslu á Twitter fyrr í dag. Hann bætti því við að hann væri við góða heilsu „bæði andlega og líkamlega.“

Þessi yfirlýsing hans kemur í kjölfar fréttaflutnings ríkisfjölmiðilsins í Norður-Kóreu sem hefur birt fréttir um að Sigley hafi verið njósnari fyrir vesturlönd, hafi safnað upplýsingum um ríkið og deilt þeim. Þá var hann sagður hafa beðist ítrekað afsökunar á brotum sínum.

Ekkert spurðist til Sigley frá 23. júní til 4. júlí og var fjölskylda hans farin að óttast mjög um afdrif hans þangað til í byrjun júli þegar birtist hann skyndilega í Peking í Kína og sagði fjölmiðlum að hann væri „í góðu lagi.“ Hann neitaði þó að tjá sig um hvar hann hefði haldið sig í þessar tæpar tvær vikur.

Málið er því enn hið dularfyllsta því ekki er ljóst hvar Sigley eða hvers vegna hann neitar að upplýsa um það. Hann segist þó enn vera áhugasamur um Norður-Kóreu og vill halda áfram að kynna sér landið en segist ekki muna snúa þangað aftur í bráð.

Þá segist hann vera mjög sorgmæddur yfir stöðunni sem er kominn upp og að hann muni mögulega aldrei aftur geta gengið um götur Pyongyang.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert