Milljarðamæringurinn Ross Perot látinn

Ross Perot var 89 ára er hann lést. Hann bauð …
Ross Perot var 89 ára er hann lést. Hann bauð sig í tvígang fram til forseta. Perot greindist með hvítblæði fyrr á þessu ári. AFP

Fyrrverandi forsetaframbjóðandinn og milljarðamæringurinn Ross Perot er látinn 89 ára að aldri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölskyldu hans, sem segir hann hafa verið umkringdan ástvinum á heimili sínu í Dallas er hann lést.

Perot, sem var iðnjöfur frá Texas, bauð sig í tvígang fram til forseta sem óháður frambjóðandi og fékk árið 1992 nægan atkvæðafjölda frá re­públi­kön­um til þess að tryggja Bill Cl­int­on, fram­bjóðanda demó­krata, sig­ur. Í því framboði talaði Perot fyrir meira jafnvægi í fjármálum ríkisins og hvatti til þess að hætt yrði að úthýsa störfum úr landi. Hann gaf aftur kost á sér í forsetaembættið árið 1996 en hafði ekki árangur sem erfiði.

BBC segir Perot hafa verið lýst sem bæði sérvitrum og fylgnum sér. Hann var einn af frumherjum tölvuiðnaðarins er hann stofnaði fyrirtæki sitt árið 1962.

Perot greindist með hvítblæði fyrr á árinu. Hann fæddist árið 1930 á tímum kreppunnar miklu og ólst upp við mikla fátækt. Hann hóf störf í tækniiðnaðinum sem sölumaður fyrir IBM áður en hann stofnaði svo fyrirtækið Electronic Data Systems (EDS) árið 1962. Hann efnaðist vel á fyrirtækinu og á níunda áratug síðustu aldar stofnaði hann fyrirtækið Perot Systems, sem Dell keypti síðar fyrir 3,9 milljarða dollara.

Sem atvinnurekandi var Perot þekktur fyrir stífar reglur um klæðaburð. Þannig bar starfsmönnum hans að klæðast hvítum skyrtum og ganga með bindi og þá var þeim bannað að vera með skegg.

Tveir starfsmenn hans voru fangelsaðir í Íran árið 1979 vegna deilna um samninga í aðdraganda írönsku byltingarinnar. Perot réð atvinnuhersveit til að bjarga þeim og urðu björgunaraðgerðirnar síðar efniviður í bæði bók og kvikmynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert