Tekjur Bidens margfölduðust

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur ágætistekjur.
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur ágætistekjur. AFP

Tekjur Joe Bidens margfölduðust eftir að hann lét af embætti varaforseta Bandaríkjanna í byrjun árs 2017. Þetta kemur fram í frétt AFP þar sem byggt er á skattaskýrslum Bidens sem hann hefur gert opinberar í tengslum við þátttöku hans í forvali Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum á næsta ári.

Þannig voru árstekjur Bidens tæplega 400 þúsund dollarar (rúmar 50 milljónir króna) síðasta árið sem hann gegndi varaforsetaembættinu en 11 milljónir dollara (um 1,4 milljarðar króna) á árinu 2017. Tekjur hans voru tæpar 4,6 milljónir dollara á síðasta ári eða sem nemur um 600 milljónum króna.

Talsmenn Bidens segja að tekjurnar hafi aðallega komið til vegna greiðslna fyrir bókarskrif og bókasölu sem og fyrri ræðuhöld.

Kamala Harris, annar frambjóðandi í forvali demókrata, hafði 1,9 milljónir dollara í tekjur á síðasta ári og Bernie Sanders um 560 þúsund dollara. Sanders hafði hins vegar 1,1 milljón dollara í tekjur árið 2016 og um eina milljón dollara árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert