Átu óvart kannabisköku

Kannabisakan var bleik svampkaka, þó ekki þessi hér.
Kannabisakan var bleik svampkaka, þó ekki þessi hér. Ljósmynd/Pinterest

Þrír breskir hjúkrunarfræðingar lentu á dögunum í því óhappi að borða kannaibisköku þegar þeir voru á vakt á Warrington spítalanum í Cheshire, Bretlandi. Eldri maður gaf þeim kökuna sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf en hvorki hann né hjúkrunarfræðingarnir höfðu vitneskju um að kannabis væri í kökunni. Sky News greinir frá þessu. 

Hjúkrunarfræðingarnir voru sagðir „út úr því“ eftir að hafa borðað bleika svampköku sem maðurinn gaf þeim. Hann hafði tekið kökuna úr átján ára afmælisfögnuði sonarsonar síns en maðurinn vildi þakka hjúkrunarfræðingunum fyrir að hafa sinnt skyldmenni sínu sérstaklega vel.

Lögreglan var kölluð til vegna atviksins. Yfirmenn á spítalanum neituðu því að nokkur hefði snert á kökunni en lögreglan staðfesti að kökunnar hafi verið neytt á spítalanum. 

Starfsmaður á spítalanum sem vildi ekki láta nafns síns getið sagði í viðtali að hjúkrunarfræðingarnir hafi verið mjög „slakir“ eftir að þeir borðuðu kökuna. 

mbl.is