Ekkert lík fannst í Páfagarði

Ekkert fannst í gröfunum í dag.
Ekkert fannst í gröfunum í dag. AFP

Germanski kirkjugarðurinn í smæsta ríki heims, Vatíkaninu, var talinn geyma svarið við ráðgátu sem hefur valdið heilabrotum í Ítalíu í 36 ár. Ráðgátunni um hvarf hinnar 15 ára gömlu Emanuelu Orlandi. 

Í dag gróf ítalska lögreglan upp tvær grafir í kirkjugarðinum með von um að finna lík Orlandi. Kirkjugarðurinn er alla jafna notaður sem grafreitur fyrir þýskumælandi meðlimi kaþólskra stofnana og er ferðamönnum meinaður aðgangur að kirkjugarðinum og jafnvel stígnum sem liggur að honum. 

Í tilkynningu frá Vatíkaninu segir að engin ummerki um Emanuelu hafi fundist við uppgröftinn. Ekki nóg með það, heldur fundust engin ummerki um konurnar sem áttu grafirnar. Grafirnar voru báðar alveg tómar. Segist Páfagarður ætla að rannsaka hvað hafi orðið að jarðneskum leifum kvennanna, tveggja prinsessa sem grafnar voru á 19. öld. 

Germanski kirkjugarðurinn í Páfagarði.
Germanski kirkjugarðurinn í Páfagarði. AFP

Hvarf sporlaust eftir flaututíma

22. júní 1983 var 15 ára Emanuela á leið sinni heim eftir flaututíma. Hún sást við strætisvagnaskýli í miðri Rómarborg en svo var líkt og hún hafi horfið af yfirborði jarðar. Engin hefur séð hana síðan, hvorki lífs né liðna. 

Í áratugi hafa Ítalir velt fyrir sér örlögum hennar. Var henni rænt eða var hún myrt? Ef svo er, hvar er þá lík hennar? 

Fjölskylda Emanuelu hefur kannað fjölda vísbendinga og orðróma, en ekki borið árangur sem erfiði. Faðir hennar var háttsettur starfsmaður í Páfagarði og margir sam­særis­kenn­inga­smiðir telja að hvarfið teng­ist skulda­upp­gjöri í Vatíkan­inu. 

Emannuela Orlandi.
Emannuela Orlandi. AFP

„Margir segja mér að gleyma þessu bara og njóta lífsins, ekki hugsa um þetta meira,“ segir eldri bróðir hennar Pietro í samtali við BBC. „En ég get ekki sleppt takinu. Ég fæ engan frið ef þetta verður ekki leyst.“

Fyrir Vatíkaninu var málið búið

Í mars á þessu ári fékk Orlandi fjölskyldan nafnlaust bréf. Í bréfinu var ljósmynd af gröf prýdd höggmynd af engli í Germanska kirkjugarðinum. Fjölskyldan leit á bréfið sem vísbendingu um hvíldarstað Emanuelu og ákvað að hafa samband við Vatíkanið. Það hafði þó áður verið reynt og í ljósi þeirra samskipta var ekki víst hver viðbrögð Vatíkansins yrðu. 

Gröfin opnuð.
Gröfin opnuð. AFP

„Fyrir þeim, var málið búið,“ segir Pietro. „Undir Frans páfa hefur veggurinn hækkað. Ég hitti hann nokkrum dögum eftir að hann var kosin og hann sagði mér að „Emanuela er upp á himnum.“

„Ég hugsaði: Allt í lagi, páfinn veit eitthvað. Ég sendi allskonar fyrirspurnir um að fá að hitta hann aftur, til að fá skýringu. Og aldrei vildi hann hitta mig aftur.“

Þegar ljóst var að enga hjálp væri frá páfa að fá, ákvað fjölskyldan að senda inn almenna beiðni til Vatíkansins um að gröfin í Germanska kirkjugarðinum yrði grafin upp. Á endanum fékkst heimild fyrir því frá dómi Vatíkansins. 

„Í fyrsta skiptið er Vatíkanið að sýna að þeir séu að hugleiða þann möguleika að það hafi einhver innan Vatíkansins borið einhverja ábyrgð [á hvarfi Emanuelu],“ fullyrðir Pietro. 

Vatíkanið aftur á móti segist aðeins hafa veitt lögreglu leyfi til að rannsaka þann möguleika að Emanuela væri grafin í kirkjugarðinum. Vatíkanið segist ekki ætla að rannsaka hvarf hennar, það sé í verkahring ítalskra yfirvalda utan lögsögu Vatíkansins sem eru eftir uppgröft dagsins engu nær. 

Pietrio Orlandi (til hægri) ásamt lögmanni sínum eftir uppgröftinn í …
Pietrio Orlandi (til hægri) ásamt lögmanni sínum eftir uppgröftinn í dag. AFP

Fyrir uppgröftinn í dag var ráðagerðin á þá leið að reynt yrði að greina hver aldur líkamsleifanna í gröfunum væri og síðan yrði erfðasýni tekið. Það kom þó ekki til þess þegar í ljós kom að ekkert væri að finna í gröfunum. 

Erfitt að hugsa til síðustu samskiptana 

Líkt og eftir fyrri tilraunir til að leita uppi hinstu hvílu Emanuelu, hefur ráðgátan um hvarf hennar aðeins orðið flóknari. 

Grafirnar tvær.
Grafirnar tvær. AFP

Pietro segist halda fast í þá vonarglætu að systir hans sé einhverstaðar á lífi. Hann muni enn eftir deginum þegar hann sá systur sína í síðasta sinn.

„Hún og ég áttum mjög náið samband. Við elskuðum bæði tónlist. Hún var að reyna að kenna mér verk eftir Chopin, við komumst aðeins í gegnum tvær blaðsíður og svo hvarf hún. Ég vona að einn daginn snúi hún aftur og kenni mér restina.“

Síðustu samskipti þeirra systkina munu þó að hans sögn sitja í honum út ævina. 

„Síðasta skiptið sem við sáumst er ekki mjög góð minning,“ rifjar hann upp. 

„Við rifumst, því hún þurfti að fara í tónlistartíma. Það var mjög heitt og ég neitaði að fara með henni því ég hafði eitthvað betra að gera. Svo hún skellti hurðinni og fór, þannig man ég eftir því

„Ég hef oft hugsað, hvað ef ég hefði farið með henni?“

mbl.is