Fjárfest í drottins nafni

AFP

Þjóðernisflokkar hafa verið áberandi í evrópskum stjórnmálum undanfarin ár og njóta aukins stuðnings meðal kjósenda. Bandarískar trúarhreyfingar sem meðal annars berjast gegn réttindum samkynhneigðra og rétti kvenna til þungunarrofs eru áberandi þegar kemur að kosningasjóðum þjóðernisflokkanna.

Fyrir fimm árum afklæddist ítalski stjórnmálamaðurinn Matteo Salvini fyrir framan myndavélarnar og voru myndirnar seldar í fjáröflunarskyni á eBay. Á þeim tíma var hann á uppleið innan þjóðernisflokksins Lega Nord, eða Norðurbandalagið, sem nú heitir Bandalagið. Salvini er í dag innanríkisráðherra Ítalíu og sennilega þekktasti stjórnmálamaður landsins. En svo var ekki fyrir fimm árum. Salvini tók að sér fyrirsætuhlutverkið á ráðstefnu sem franski systurflokkur Bandalagsins, Þjóðfylkingin, stóð fyrir. Andvirði sölunnar rann að hluta til ítalskra samtaka sem berjast gegn þungunarrofi. Sjá nánar hér

Í Evrópuþingskosningunum nýverið vann Bandalagið mikinn kosningasigur og hlaut tæplega þriðjung atkvæða sem er fimm sinnum meira fylgi en þau 6% sem flokkurinn hlaut í kosningunum árið 2014.

Salvini er ein af helstu stjörnum þjóðernisflokka Evrópu ásamt Marine le Pen, formanni frönsku Þjóðfylkingarinnar, og forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orbán. Þjóðernisflokkar hafa náð miklum árangri í kosningum í Evrópu undanfarin ár og er það ekki síst þakkað að stefnur flokkanna hafa verið slípaðar til þannig að þær höfði til breiðari hóps kjósenda en áður.

Matteo Salvini á kosningafundi fyrir Evrópuþingkosningarnar í vor.
Matteo Salvini á kosningafundi fyrir Evrópuþingkosningarnar í vor. AFP

„Þetta er merki um að Evrópa hefur breyst,“ sagði Salvini á fundi með blaðamönnum að loknum Evrópuþingkosningunum. Hann hét kjósendum því að bjarga gyðingum/kristnum rótum Evrópu. Það væri löngu tímabært sagði hann og kyssti á krossinn á talnabandi sínu á fundinum í Mílanó. Í Ungverjalandi fagnaði bandamaður hans, Orbán, nýjum tímum í evrópskum stjórnmálum.

Fjallað er um evrópska þjóðernisflokka og fjármögnun þeirra í grein sem birtist á vef New York Review of Books í gærkvöldi. Blaðamenn þar ásamt starfssystkinum hjá Open Democracy hafa frá því um mitt ár 2016 unnið að því í sameiningu að rekja fjármögnun og starfsemi þjóðernishreyfinga í Evrópu. Til að mynda kosningabaráttuna fyrir Brexit-kosningarnar 2016, breytt landslag í Ungverjalandi þegar kemur að réttindum kvenna og LGBTQI-fólks. 

Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orbán, ásamt forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, í …
Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orbán, ásamt forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, í Hvíta húsinu í maí. AFP

Samkvæmt grein NY Books er meðal stefnumála þessara flokka að draga úr réttindum kvenna og LGBTQI-fólks. Flokkarnir vilja stuðla að rétti ófæddra til lífs (án þess taka tillit til hættunnar sem fylgir ólöglegu þungunarrofi og áhættu á meðgöngu). Þeir vilja aukna áherslu á fjölskylduna eins og hún var skilgreind fyrr á öldum. Það er, hefðbundin hlutverk kynjanna þar sem ekkert rými er fyrir LGBTQI-fólk og staða konunnar sett aftur inn á heimilið, enda sé það hennar rétti vettvangur. Trúarstofnanir og frelsi markaðarins, upp að vissu marki, er hafið upp fyrir önnur réttindi og frjálslyndi. 

Formaður Rassemblement National (RN), Marine Le Pen, er þingmaður á …
Formaður Rassemblement National (RN), Marine Le Pen, er þingmaður á Evrópuþinginu. AFP

Margir leiðtogar evrópskra þjóðernishreyfinga fara ekki leynt með hug sinn og segja að það þurfi að verja kristin gildi í Evrópu. Meðal annars hafa Orbán og Salvini ítrekað komið þessum hugsjónum sínum að og spænski þjóðernisflokkurinn Vox, sem er fyrstur slíkra flokka til að koma mönnum að á spænska þinginu frá falli Franco, hefur ýjað að því að styðja við breytingar á lögum um kynbundið ofbeldi. Enda telur flokkurinn ósanngjarnt að menn séu dæmdir glæpamenn fyrir að beita heimilisofbeldi. Stjórnarflokkurinn í Póllandi, Lög og réttur, er að þrýsta á að banna þungunarrof og setja verulegar takmarkanir á möguleika kvenna á getnaðarvörnum.

Leiðtogi spænska þjóðernisflokksins Vox, Santiago Abascal.
Leiðtogi spænska þjóðernisflokksins Vox, Santiago Abascal. AFP

Höfundar greinarinnar The American Dark Money Behind Europe’s Far Right, Mary Fitzgerald og Claire Provost, segja að það hafi komið þeim á óvart að sjá hversu hratt boðskapur þjóðernisflokka breiddist út og hversu vel honum er tekið í Evrópu en þegar fjármálin voru skoðuð hafi skýringin að hluta komið í ljós. Á annan tug bandarískra trúarstofnana hafa lagt þjóðernisflokkum lið í Evrópu með fjármagni.

Að minnsta kosti 50 milljónir Bandaríkjadala, 6,3 milljarðar króna, hafa komið frá á öðrum tug bandarískra trúarhópa. Um er að ræða kosningafjárframlög sem erfitt er að rekja og samkvæmt greininni í NY Books er þetta aðeins toppurinn á ísjakanum. Fjárhæðirnar eru mun hærri þar sem aðeins tólf kristin samtök voru skoðuð og skattskil þeirra og bókhald.

Frá göngu Massachusetts Citizens for Life hold í síðasta mánuði.
Frá göngu Massachusetts Citizens for Life hold í síðasta mánuði. AFP

Af þessum tólf trúarsamtökum kom stærsta framlagið frá Billy Graham Evangelistic Association, eða 20 milljónir dala á tímabilinu 2008 til 2014. Hér er nánar farið yfir fjárframlögin á vef Open Democracy

Þeir sem hafa sett fjármagn í evrópsku hreyfingarnar hafa einnig stutt við bakið á þeim sem nú eru við stjórnvölinn í Bandaríkjunum og ekkert ólöglegt við það. Má þar nefna Koch-bræðurna og fjölskyldu menntamálaráðherrans, Betsy DeVos. Auk trúarsamtaka sem Jay Sekulow starfar náið með en hann er einn af persónulegum lögmönnum forseta Bandaríkjanna, Donald Trump. 

Hugveitan Acton Institute er þar einnig nefnd og önnur hugveita, Dignitatis Humanae, sen er tengd Steve Bannon, sem var einn helsti ráðgjafi Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta. Hugveitan ætlaði sér að koma á laggirnar menntastofnun skammt fyrir utan Róm þar sem þjálfa átti upp nýja kynslóð, Salvini, Orbán og Le Pen. Eða eins og Bannon sagði í viðtali við Richard Engel á NBC í apríl: Setjum á laggirnar akademíu þar sem við komum helstu hugsuðum saman og þar verður hægt að þjálfa nútímaskylmingaþræla

Bandarísk trúarsamtök hafa oft stutt fjárhagslega við aðgerðasinna sem berjast gegn réttindum LGBTQI-fólks, kynfræðslu og þungunarrofi. Má þar nefna baráttuna fyrir dauðarefsingum við samkynhneigð í Úganda og banni við þungunarrofi í Rómönsku-Ameríku. 

Neil Datta, sem fer með réttindamál á Evrópuþinginu (European Parliamentary Forum on Sexual and Reproductive Rights (EPF)), segir í viðtali við NY Books að það hafi tekið þessa hópa 30 ár að koma sínum manni að í Hvíta húsinu. Svipað sé að gerast í Evrópu nema mun hraðar og víðar í Evrópu en nokkur hafi getað ímyndað sér. Enda eiga stjórnmálaskoðanir Salvini, Orbán, le Pen og fleiri hljómgrunn víða í Evrópu þar sem þjóðernisflokkar hafa náð miklum árangri í kosningum víða í álfunni og eins í kosningu til Evrópuþingsins í vor. Tvö stærstu flokka­banda­lög­in á þing­inu, Jafnaðar­menn (S&D) og Banda­lag hóf­samra hægri­flokka (EPP), töpuðu hvort um sig um 40 sæt­um og hafa í fyrsta sinn frá stofn­un Evr­ópuþings­ins ekki sam­an­lagðan meiri­hluta þing­sæta þrátt fyr­ir að vera eft­ir sem áður stærstu tvö banda­lög­in á þing­inu. 

Þögul mótmæli kvenna sem eru klæddar í anda bókar Margaret …
Þögul mótmæli kvenna sem eru klæddar í anda bókar Margaret Atwood, The Handmaid’s Tale, hafa verið áberandi víða í Bandaríkjunum og Evrópu undanfarið. AFP
Aðgerðasinnar úr hreyfingunni Ni una menos sem berjast gegn kynbundnu …
Aðgerðasinnar úr hreyfingunni Ni una menos sem berjast gegn kynbundnu ofbeldi og krefjast réttinda kvenna til þungunarrofs. AFP
mbl.is