Geislavirkur úrgangur lekur úr sokknum kafbáti

Mannlausi kafbáturinn Ægir 600 tekur sýni úr K-278.
Mannlausi kafbáturinn Ægir 600 tekur sýni úr K-278. Ljósmynd/IMR

Rannsóknarleiðangur norskra vísindamanna í Noregshafi hefur leitt í ljós að rússneskur kjarnorkukafbátur sem sökk árið 1989 og liggur á hafsbotni leki geislavirkum úrgangi.

BBC og Alþjóðlega hafrannsóknarstofnunin IMR greina frá.

Sýni sem tekin voru með ómönnuðum kafbáti, sem heitir Ægir 600, sýna að sesíum lekur úr loftræstiröri kafbátsins Komsomlets eða K-278 eins og hann er einnig nefndur. Geislavirkni í sjónum kringum kafbátinn mælist 800 þúsund sinnum meiri en eðlilegt er.

K-278 sakk í Noregshafi í apríl árið 1989 eftir að eldur braust út í honum. 42 sjóliðar létu lífið en 22 komust lífs af. Á þeim tíma sem hann sökk voru í honum tvö kjarnorku-tundurskeyti. Þá bar hann sex hefðbundin tundurskeyti.

Norski vísindamaðurinn, Hilde Elise Heldal, segir þó að lekinn væri ekki mikið áhyggjuefni þar sem sjórinn á norðurheimskautinu útþynni lekann mjög fljótt og lítið sé um dýralíf á þessum slóðum.

Vísindamaðurinn Hilde Elise Heldal segir óþarfi að hafa miklar áhyggjur.
Vísindamaðurinn Hilde Elise Heldal segir óþarfi að hafa miklar áhyggjur. Ljósmynd/IMR

Kjarnorkustofnun Noregs segir að lekinn komi frá kjarnofni bátsins og geislunin mælist 800 Bq (becquerels) í einum lítra. Eðlilegt magn geislunar í Noregshafi er 0,001 Bq á lítra. Hins vegar voru sum sýni sem engin geislun mældist í.

Rússneskir vísindamenn hafa áður kannað kafbátinn með mönnuðum kafbát og fundu þá lekann á sama stað og þeir norsku.

„Við tókum vatnssýni innan úr loftræstirörinu því Rússarnir höfðu tilkynnt um leka þar árið 1990 og 2007,“ sagði Heldal og bætti við að því hefði geislunin ekki komið á óvart. Hún segir ekki ástæðu til að hafa áhyggjur í bili.

Kafbáturinn var vel búinn vopnum.
Kafbáturinn var vel búinn vopnum. Ljósmynd/IMR
K-278 hefur litið betur út.
K-278 hefur litið betur út. Ljósmynd/IMR
Lekinn kemur úr loftræstirörinu.
Lekinn kemur úr loftræstirörinu. Ljósmynd/IMR
Ægir 600 á leið í sýnatöku.
Ægir 600 á leið í sýnatöku. Ljósmynd/IMR
Sýnin voru handleikin af varfærni.
Sýnin voru handleikin af varfærni. Ljósmynd/IMR
Ægi 600 er stjórnað frá þessari stjórnstöð.
Ægi 600 er stjórnað frá þessari stjórnstöð. Ljósmynd/IMR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert