Reyndu að taka breskt olíuskip

AFP

Breskt herskip bjargaði bresku olíuskipi í gær frá írönsku strandgæslunni. Strandgæslan hafði fyrirskipað olíuskipinu að breyta stefnu sinni og sigla inn í lögsögu Írans en herskipið, freigátan HMS Montrose sem fylgdi olíuskipinu, beindi byssum sínum að bátum strandgæslunnar og hrakti þá í burtu samkvæmt frétt AFP.

Stjórnvöld í Íran höfðu varað breska ráðamenn við því að það myndi hafa afleiðingar að Bretar kyrrsettu íranskt olíuskip í Gíbraltar á dögunum. Höfðu þau hótað því að kyrrsetja breskt olíuskip á móti.

Íranar hafa harðlega mótmælt kyrrsetningu íranska olíuskipsins en Bretar segja að farmur þess hafi verið á leiðinni til Sýrlands sem býr við refsiaðgerðir af hálfu Evrópuríkja. Írönsk stjórnvöld hafa hafnað því og sagt áfangastaðinn annan.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur brugðist við fréttum af því að Íranir hafi reynt að kyrrsetja breska olíuskipið með því að hóta írönskum stjórnvöldum auknum refsiaðgerðum vegna kjarnorkuáætlunar landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert