Merkel sat meðan þjóðsöngvar voru spilaðir

Angela Merkel var augljóslega hressari í dag en í gær.
Angela Merkel var augljóslega hressari í dag en í gær. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sem hefur fengið þrjú skjálftaköst á jafn mörgum vikum breytti út af vananum þegar hún tók á móti nýjum forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, í dag.

Venjan er að standa meðan þjóðsöngvar eru leiknir en í dag sátu þær Merkel og Frederiksen hlið við hlið í vel bólstruðum stólum og létu fara vel um sig meðan þær hlustuðu á þjóðsöngva þjóða sinna. The Guardian greinir frá.

Angela Merkel og Mette Frederiksen létu fara vel um sig …
Angela Merkel og Mette Frederiksen létu fara vel um sig í sólinni í Berlín í morgun. AFP

Áhyggjur af heilsu Merkel vöknuðu um miðjan júni þegar hún sást titra og skjálfa er hún tók á móti Volody­myr Zelen­sky, for­seta Úkraínu, í Berlín. Þá kenndi hún hitanum í Berlín og vökvatapi um skjálftann.

Rúmlega viku síðar sást hún hríðskjálfa í annað sinn er við formlega athöfn þar sem forseti Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, kynnti nýjan dómsmálaráðherra. Svalt var inni í salnum þar sem athöfnin fór fram og því ljóst að skjálftinn væri ekki vegna hita eða vökvataps. Eftir athöfnina vildi hún lítið tjá sig við fjölmiðla um skjálftann og sagðist ekki hafa frá neinu að segja. Daginn eftir lýsti hún því svo yfir að henni liði vel.

Þriðja skjálftakastið reið síðan yfir Merkel í gær við athöfn í Berlín þar sem hún stóð við hlið forsætisráðherra Finnlands, Antti Rinne. Þegar skjálftinn byrjaði greip Merkel um hendur sér og virtist vera bíða eftir því að hann liði hjá. Augljóst var að henni leið ekki vel.

Merkel dó ekki ráðalaus í dag

Staðan var önnur í dag og virkaði Merkel róleg og örugg og það fór greinilega vel um hana á meðan athöfninni stóð fyrir utan Bundeskanzleramt (húsið sem hýsir embætti kanslara) í Berlín.

Samkvæmt heimildum þýska fjölmiðilsins Bild óskaði Merkel sérstaklega eftir þessari breytingu á fyrirkomulaginu og er talið að hún hafi viljað koma í veg fyrir að fá fjórða skjálftakastið á stuttum tíma.

Spurð um heilsufar sitt eftir athöfnina sagðist Merkel hafa það gott og að orsök skjálftakastanna væri líklega andlegs eðlis frekar en líkamslegs, að minnsta kosti að hluta til.

Merkel er nú á sínu fjórða kjör­tíma­bili sem kansl­ari, en hún tók fyrst við embætti í nóv­em­ber 2005. Hef­ur hún sagst ætla að hætta í stjórn­mál­um árið 2021 þegar fjórða kjör­tíma­bili henn­ar lýk­ur.

mbl.is