Auglýsti dótturina á klámsíðum

Karlmaður á sextugsaldri í Rogaland í Noregi hefur verið ákærður …
Karlmaður á sextugsaldri í Rogaland í Noregi hefur verið ákærður fyrir að auglýsa dóttur sína, fyrrverandi sambýliskonur og dætur þeirra á klámsíðum með orðalagi á borð við „Þessi leitar að starfi við þrif, en hún gerir meira en að þrífa.“ Rekstur máls hans hefst fyrir héraðsdómi 23. ágúst. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessi leitar að starfi við þrif, en hún gerir meira en að þrífa,“ skrifaði 53 ára gamall karlmaður, íbúi Rogaland-fylkis við vesturströnd Noregs, þegar hann auglýsti þáverandi sambýliskonu sína á stefnumótasíðu að henni fornspurðri. Ekki lét maðurinn þar við sitja heldur birti einnig nektarmyndir af dóttur sinni með textanum „Þetta er dóttir mín. Vill einhver sofa hjá henni?“

Dóttirin var undir lögaldri þegar myndatökurnar áttu sér stað og fundust 7.000 myndir, sem sýna börn í kynferðislegum kringumstæðum, auk 400 myndskeiða sem sýna verulega gróft kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum, við húsleit lögreglu hjá manninum sem grunaður er um stórfelld kynferðis- og blygðunarsemisbrot gagnvart alls fimm konum og stúlkum sem eru fyrrverandi sambýliskonur hans og dætur þeirra.

Ná meint brot mannsins til þess að deila myndum af framangreindum konum og stúlkum á alls 30 klámsíðum á lýðnetinu auk þess að senda fjölda mynda af þeim í tölvupósti til ótilgreinds hóps lagsmanna sinna.

Telur ákæruvaldið einsýnt að manninum hafi gengið til ætlunar að selja aðgang að dóttur sinni og hinum konunum gegn vilja þeirra þótt ekki hafi tekist að færa sönnur á það enn sem komið er að. 

Þyngsti dómur Noregs í barnaníðsmáli féll í júní

Rekstur málsins hefst fyrir Héraðsdómi Haugaland í Haugesund í Norður-Rogalandi 23. ágúst. Norsk lögregla hefur undanfarin misseri flett ofan af gríðarstórum barnaníðsmálum og féll þyngsti dómur í sögu Noregs í slíku máli í lok júní, 16 ár, þegar fyrrverandi knattspyrnudómari, „Sandra“ eins og hann kallaði sig á spjallsíðum lýðnetsins, hlaut sinn dóm í Héraðsdómi Raumaríkis fyrir að brjóta gegn 270 drengjum kynferðislega og voru ákæruatriði málsins alls 473. 

Norsk hegningarlög bjóða barnaníðingum allt að 21 árs fangelsi í fjórum greinum sem snúa að slíkri háttsemi og hefur norska rannsóknarlögreglan Kripos í samstarfi við rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar í Ósló um sta­f­rænt eft­ir­lit með kyn­ferðis­brota­mál­um, E-sporgruppa eins og hún kallast í daglegu tali, lagt nótt við dag til að fletta ofan af hringjum barnaníðinga sem starfa á dulnetinu (e. deep web, n. mør­ke nettet, dyp­nettet) og eru ekki nema nokkrir dagar síðan lögregla á Filippseyjum réðst til inngöngu í hús þar í krafti upplýsinga frá norskum karlmanni frá Troms sem hafði greitt barnaníðingum á Filippseyjum mörg hundruð þúsund norskar krónur fyrir að brjóta gegn börnum eftir pöntun og senda honum myndskeið af brotunum eins og mbl.is greindi frá á mánudaginn.

VG

NRK P4

Stavanger Aftenblad (læst öðrum en áskrifendum)

mbl.is