Bjó í 3 ár með líki móður sinnar

Beinagrind konunnar fannst á gólfi svefnherbergis hennar, en dóttir hennar …
Beinagrind konunnar fannst á gólfi svefnherbergis hennar, en dóttir hennar deildi hinu svefnherbergi hússins með dóttur sinni. AFP

Kona nokkur í Texas í Bandríkjunum hefur verið handtekin eftir að líkamsleifar móður hennar fundust á heimili sem hin látna deildi með dóttur sinni og barnabarni.

BBC segir lögreglu telja hina látnu, sem var 71 árs, hafa dottið árið 2016. Telja þeir dóttur hennar ekki hafa tryggt móður sinni aðstoð eftir fallið og að hún hafi látist nokkrum dögum síðar þó að meiðsli hennar hefðu ekki verið lífshættuleg.

Beinagrind konunnar fannst á gólfi svefnherbergis hennar, en dóttir hennar deildi hinu svefnherbergi hússins með dóttur sinni. Barnabarn hinnar látnu var undir 15 ára aldri á þeim tíma sem hún bjó með líki ömmu sinnar og hefur móðir hennar því verið ákærð fyrir að valda barni skaða. Stúlkunni hefur nú verið komið í fóstur hjá ættingjum, auk þess sem hún fær aðstoð frá barnaverndaryfirvöldum.

Móðir hennar á hins vegar yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi og 10.000 dolllara sekt (tæpar 1,3 milljónir kr.)

mbl.is