Brjóstakáf og flengingar í breska þinginu

Aðstoðarmenn þingmanna lýstu því í viðtölum við rannsakendur að það …
Aðstoðarmenn þingmanna lýstu því í viðtölum við rannsakendur að það að tilkynna hegðun þingmanna jafngilti því að sturta eigin starfsferli ofan í klósettið. AFP

Starfsaðstæður aðstoðarmanna breskra þingmanna eru í mörgum tilfellum óásættanlegar og sumir þeirra hafa sætt kynferðislegri áreitni af hálfu yfirmanna sinna. Brjóstakáf og flengingar eru á meðal þess sem starfsmenn þingmanna greindu frá í nýrri sjálfstæðri rannsókn sem unnin var fyrir breska þingið og birt á fimmtudag.

Um 3.200 aðstoðarmenn starfa í neðri deild breska þingsins, þar sem 650 þingmenn sitja. Ákveðið var að ráðast í sjálfstæða rannsókn á starfsaðstæðum aðstoðarmannanna í október síðastliðnum, eftir að mikill fjöldi nafnlausra frásagna um kynferðislega áreitni og fleira kom upp á yfirborðið í kjölfar #MeToo byltingarinnar.

Skýrslan dregur upp dökka mynd af því sem fram fer innan þinghússins í Westminster og því fyrirkomulagi sem þar er við lýði um ráðningar þingmanna á aðstoðarmönnum sínum, en hver og einn breskur þingmaður ræður sér sína eigin aðstoðarmenn og hefur fullt sjálfsvald um það hverjir eru ráðnir. Aðstoðarmenn þingmanna lýstu því í viðtölum við rannsakendur að það að tilkynna hegðun þingmanna jafngilti því að sturta eigin starfsferli ofan í klósettið.

Í skýrslunni eru tiltekin dæmi um að aðstoðarmenn séu látnir taka að sér verk sem þeir eigi alls ekki að vera að sinna samkvæmt starfslýsingu, eins og til dæmis það að þrífa íbúðir þingmanna og standa í framboðsbaráttu með þeim, en aðstoðarmennirnir eru á launum hjá breska ríkinu og eiga að hjálpa þingmönnum að takast á við verkefnin í þinginu, en ekki sinna persónulegum eða pólitískum verkefnum fyrir þingmenn.

Til í að láta keyra á sig frekar en að mæta í vinnu

Álag, áreitni og önnur óásættanleg framkoma þingmanna við undirmenn sína hefur gert það að verkum að mörgum þeirra líður illa í vinnunni og hafa margir þeirra átt við andlega eða líkamlega kvilla að stríða, sem rekja má með beinum hætti til starfsaðstæðna.

„Ég tel mig ekki vera sérlega viðkvæma manneskju,“ er haft eftir einum aðstoðarmanni í skýrslunni, „en það hafa verið tilfelli þar sem ég græt á leiðinni í vinnuna, í einu skiptin frá því að ég var á barnsaldri.“

Þá lýsir lögfræðingurinn Gemma White, sem ritaði skýrsluna, því að í einu viðtali við aðstoðarmann hafi komið fram að hann hafi hugsað, er hann gekk yfir götur á leið sinni til vinnu, að ef að keyrt væri á hann þyrfti hann ekki að mæta í vinnuna.

Skýrsluhöfundur segir einnig að í viðtölum sínum við aðstoðarmenn hafi atvikum sem verið lýst sem geti ekki flokkast sem annað en „gróft kynferðisofbeldi“ en nefnir þó hvorki gerendur né fer í smáatriði.

Umfjöllun New York Times um málið

mbl.is