Hafa áhyggur af eldflaugavarnakaupum Tyrkja

Rússnesk herflugvél á Murted-herflugvellinum í Ankara. Tyrkir fengu fyrsta hluta …
Rússnesk herflugvél á Murted-herflugvellinum í Ankara. Tyrkir fengu fyrsta hluta rússneska S-400-eldflaugavarnakerfisins afhentan í dag. AFP

Atlantshafsbandalagið (NATO) lýsti í dag yfir áhyggjum af því að Tyrkir fengju rússneska S-400-eldflaugavarnakerfið afhent. Fyrsti hluti eldflaugavarnakerfisins var afhentur í herstöð flughersins í Ankara í dag.

BBC segir afhendinguna skaprauna bandarískum stjórnvöldum, sem hafa varað Tyrki við að þeir geti ekki bæði haft bandarísku F-35-orrustuþoturnar og rússneska eldflaugavarnakerfið.

Tyrkir hafa samið um kaup á 100 F-35-orrustuflugvélum og hafa eytt háum fjárhæðum í kaupin. Bandarísk varnarmálayfirvöld hafa hins vegar sagt að þau vilji ekki hafa þoturnar nálægt rússneska eldflaugavarnakerfinu þar sem þau óttast að viðkvæmar upplýsingar um uppbyggingu vélanna geti þar með ratað í hendur rússneskra sérfræðinga.

Bæði Bandaríkin og Tyrkland eru aðilar að NATO, en tyrknesk stjórnvöld hafa undanfarið unnið að því að bæta tengsl sín við rússnesk stjórnvöld.

NATO hefur ítrekað varað Tyrki við því að rússneska kerfið sé ósamrýmanlegt vopnakerfum NATO, ekki hvað síst F-35-orrustuþotunum.

„Við höfum áhyggjur af mögulegum afleiðingum ákvörðunar Tyrkja að kaupa S-400-kerfið,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir einum embættismanna NATO.

Bandarísk stjórnvöld hafa gefið Tyrkjum frest til loka þessa mánaðar til að hætta við kaupin á S-400-kerfinu, annars verði tyrkneskir flugmenn reknir úr námskeiði um vélarnar og þeir sendir úr landi.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur hins vegar neitað að gefa sig og segist bjartsýnn á að Bandaríkin muni ekki beita Tyrki refsiaðgerðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert